Franski bílaframleiðandinn Renault mun setja á markað ofurbíl sem er gríðarlega spennandi sportbíll. Þetta er Renault 5 Turbo 3E og verður hann 100% rafbíll. Bíllinn mun koma á markað árið 2027.
Sportbíllinn er tveggja dyra og tveggja sæta og byggður á hinum gömlu klassísku Renault 5 Turbo og Turbo 2 sem gerðu garðinn frægan á níunda áratug síðustu aldar. Margt í hönnuninni er tekið frá gömlu goðsögnunum, m.a. hliðarspeglarnir og ljósin sem eru að vísu orðin LED ljós í nýja bílnum.
Nýi rafdrifni sportbíllinn er aðeins 1.450 kg og er búinn 70 kW rafmótor og drægni bílsins er um 400 km samkvæmt WLTP staðlinum.
540 hestafla tryllitæki
Bíllinn er gríðarlega aflmikill. Rafmótorinn skilar honum 540 hestöflum sem gerir hann að algeru tryllitæki. Bíllinn er undir 3,5 sekúndum úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 270 km/klst. Það tekur aðeins 15 mínútur að hlaða bílinn úr 15-80%. Lengd bílsins er 4,08 metrar og breiddin 2,03 metrar. Hæð bílsins er 1,38 metrar. Bíllinn liggur lágt eins og gefur að skilja fyrir sportbíl og er veghæðin aðeins 118 mm.
„Með því að búa til nýjan flokk með rafknúnum, litlum ofurbílum sýnir Renault ástríðu og anda hugvits og hugrekkis sem hefur alltaf verið viðloðandi fyrirtækið. Þessi skemmtilegi og sérlega spennandi 4 metra langi sportbíll býður upp á frábær afköst og skemmtun,“ segir Fabrice Cambolive, forstjóri Renault.

1.980 eintök af bílnum
Samkvæmt upplýsingum frá Renault verða framleidd 1.980 eintök af bílnum sem verða öll númeruð. Talan er tileinkuð árinu sem Renault Turbo 5 og Turbo 2 komu fyrst á markað sem var 1980.
Sumt í hönnuninni minnir einnig á hinn nýja og vinsæla Renault 5 E-Tech eins og afturljósin og speglarnir. Sportbíllinn nýi mun kosta 23 milljónir íslenskra króna miðað við gengið í dag. Þetta verður einn dýrasti Renault bíllinn sem fer í almenna sölu.
Það verður spennandi að sjá hvort bíllinn mun koma til Íslands en samkvæmt upplýsingum frá BL, umboðsaðila Renault, þá verður hann sérpantaður til landsins ef þess er óskað. Aldrei að vita nema einhver hér á landi vilji eignast 23 milljóna króna ofurbíl frá Renault.