Ágúst Örn Arnarson hefur verið ráðinn sem fjárfestingastjóri hjá sjóðstýringarfyrirtækinu Ísafold Capital Partners.
Ágúst hefur gegnt stöðu viðskiptastjóra hjá Arion banka frá árinu 2018. Síðastliðin þrjú ár starfaði hann sem viðskiptastjóri í teymi um sérhæfðar lánveitingar og sölu lána á fyrirtækja- og fjárfestingabankasviði Arion banka.
Þar áður var hann viðskiptastjóri í sjávarútvegs- og verslunarteymi á fyrirtækjasviði bankans og viðskiptastjóri í teymi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á viðskiptabankasviði.
Ágúst er með M.Fin gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands og BSc gráðu í viðskiptafræði, með áherslu á hagfræði frá Coastal Carolina University í Suður Karólínu.
„Ég hef fylgst með framgangi og vexti Ísafold Capital Partners undanfarin ár. Félagið hefur á skömmum tíma markað sér ákveðna sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði og er orðinn leiðandi aðili í veitingu millilagslána, en það er markaður sem ég tel að muni vaxa enn frekar á næstu árum. Ég er spenntur að vera orðinn hluti af þeirri vegferð,“ segir Ágúst Örn.
Ísafold Capital Partners, stofnað árið 2009, er sjálfstætt starfandi rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Félagið sérhæfir sig í rekstri sjóða með áherslu á fjárfestingar í lánum og lánatengdum afurðum, ýmist sem eingöngu lánveitandi eða einnig sem meðfjárfestir.
Í dag stýrir félagið tveimur sérhæfðum sjóðum, MF2 hs og MF3 hs. Fyrsti sjóður félagsins var MF1 slhf. en honum var slitið árið 2023.