Stólpi hefur ráðið Sigurbjörn Hallsson sem nýjan framkvæmdastjóra Smiðju. Hann er menntaður rafmagnstæknifræðingur frá Odense Teknikum í Danmörku og er með yfir 18 ára reynslu í verkefnastjórnun, byggingastjórnun, eftirliti og framkvæmdum.
Sigurbjörn kemur til Stólpa frá Eflu og hefur komið að fjölmörgum stórum innviðaverkefnum á Íslandi, meðal annars fyrir EFLU, Alcoa fjarðarál, Norðurál, Reykjavíkurborg, Veitur, Alvotech og fleiri.
„Við bjóðum Sigurbjörn hjartanlega velkominn í teymið hjá Stólpa. Reynslan hans og þekking er mikilvæg viðbót sem mun styrkja Stólpa í áframhaldandi vexti og þróun,“ segir Börkur Grímsson, forstjóri Stólpa.
Stólpi sérhæfir sig á sviði sölu, leigu og þjónustu við gáma og húseiningar og fleiri lausnir fyrir atvinnulífið og opinbera aðila.
Stólpi ehf. er hluti af samstæðu Styrkáss, þjónustufyrirtækis á fyrirtækjamarkaði sem sérhæfir sig m.a. í að þjónusta innviða- og atvinnuvegafjárfestingu. Samstæðan er með markmið um innri og ytri vöxt á fimm kjarnasviðum: orku og efnavöru (Skeljungur), tækjum og búnaði (Klettur), eignaumsýslu og leigustarfsemi (Stólpi), umhverfisþjónustu og iðnaði.