Alþjóð­legir skulda­bréfa­markaðir urðu fyrir veru­legum þrýstingi í dag sam­kvæmt Financial Times, þegar áhyggjur fjár­festa af ört vaxandi skuldasöfnum ríkja leiddu til hækkunar á ávöxtunar­kröfu langtíma ríkis­skulda­bréfa.

Í Bandaríkjunum hækkaði ávöxtunar­krafa 30 ára ríkis­skulda­bréfa í 4,99% í hæsta gildi frá því í júlí og í Japan náðu vextir á 30 ára ríkis­skulda­bréfum sögu­legu há­marki, eða 3,29%.

Ávöxtunar­krafa hækkar þegar verð bréfa fellur og endur­speglar þetta aukinn söluþrýsting á mörkuðum.

Hreyfingin á skulda­bréfa­mörkuðum kemur á sama tíma og mörg helstu hag­kerfi heims standa frammi fyrir tvíþættri áskorun: að hemja vaxandi skuldasöfnun og reyna samtímis að örva hag­vöxt án þess að auka verðbólguþrýsting.

Áhyggjur af ríkis­fjár­málum Bandaríkjanna jukust enn eftir að áfrýjunar­dómstóll ógilti meiri­hluta tolla sem Donald Trump hafði inn­leitt, en þeir höfðu áður skilað hundruðum milljarða dollara í ríkis­sjóð.

„Við erum að sjá nánast full­komna sam­setningu áhyggju­efna: fjár­laga­stefnu sem gæti orðið verðbólgu­hvetjandi, aukna skulda­bréfaút­gáfu og ekki nægi­lega mikla eftir­spurn,“ sagði Mitul Kot­echa, yfir­maður vaxta­stefnu á ný­markaðs­svæðum hjá Barcla­ys.

Þróunin fylgir í kjölfar þess að 30 ára bresk ríkis­skulda­bréf (gilt) náðu hæstu ávöxtunar­kröfu frá 1998 deginum áður, og í Frakk­landi hækkuðu 10 ára vextir um 0,05 pró­sentu­stig í 3,58% vegna ótta um að fjár­laga­halli gæti ógnað ríkis­stjórn for­sætis­ráðherrans François Bayrou.

Óstöðug­leikinn á skulda­bréfa­mörkuðum hafði einnig neikvæð áhrif á hluta­bréfa­markaði. Topix-vísi­talan í Japan féll um 1,2% og ástralska S&P/ASX 200 um 1,8%.

Í Bandaríkjunum lækkaði Nas­daq Composite um 1,2% á þriðju­dag og S&P 500 um 0,6%, þó að vísi­tala fu­tures hafi sýnt smávægi­lega við­spyrnu á mið­viku­dag.

Pólitísk óvissa magnar áhættuna

Alicia Garcia-Her­rero, aðal­hag­fræðingur Natixis í Asíu, sagði að ríkis­skulda­bréf væru orðin áhættu­meiri eigna­flokkur þar sem stjórn­mála­menn væru undir auknum þrýstingi á að auka út­gjöld og halda vöxtum lágum.

Í Japan óttast fjár­festar að Shigeru Is­hiba for­sætis­ráðherra gæti neyðst til að segja af sér eftir slæmt gengi Lýðræðis­flokksins í efri deild þingsins í júlí. Slík niður­staða gæti opnað á nýjan for­sætis­ráðherra með lýðskrumsmeiri efna­hags­stefnu og aukin ríkisút­gjöld.