Alþjóðlegir skuldabréfamarkaðir urðu fyrir verulegum þrýstingi í dag samkvæmt Financial Times, þegar áhyggjur fjárfesta af ört vaxandi skuldasöfnum ríkja leiddu til hækkunar á ávöxtunarkröfu langtíma ríkisskuldabréfa.
Í Bandaríkjunum hækkaði ávöxtunarkrafa 30 ára ríkisskuldabréfa í 4,99% í hæsta gildi frá því í júlí og í Japan náðu vextir á 30 ára ríkisskuldabréfum sögulegu hámarki, eða 3,29%.
Ávöxtunarkrafa hækkar þegar verð bréfa fellur og endurspeglar þetta aukinn söluþrýsting á mörkuðum.
Hreyfingin á skuldabréfamörkuðum kemur á sama tíma og mörg helstu hagkerfi heims standa frammi fyrir tvíþættri áskorun: að hemja vaxandi skuldasöfnun og reyna samtímis að örva hagvöxt án þess að auka verðbólguþrýsting.
Áhyggjur af ríkisfjármálum Bandaríkjanna jukust enn eftir að áfrýjunardómstóll ógilti meirihluta tolla sem Donald Trump hafði innleitt, en þeir höfðu áður skilað hundruðum milljarða dollara í ríkissjóð.
„Við erum að sjá nánast fullkomna samsetningu áhyggjuefna: fjárlagastefnu sem gæti orðið verðbólguhvetjandi, aukna skuldabréfaútgáfu og ekki nægilega mikla eftirspurn,“ sagði Mitul Kotecha, yfirmaður vaxtastefnu á nýmarkaðssvæðum hjá Barclays.
Þróunin fylgir í kjölfar þess að 30 ára bresk ríkisskuldabréf (gilt) náðu hæstu ávöxtunarkröfu frá 1998 deginum áður, og í Frakklandi hækkuðu 10 ára vextir um 0,05 prósentustig í 3,58% vegna ótta um að fjárlagahalli gæti ógnað ríkisstjórn forsætisráðherrans François Bayrou.
Óstöðugleikinn á skuldabréfamörkuðum hafði einnig neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaði. Topix-vísitalan í Japan féll um 1,2% og ástralska S&P/ASX 200 um 1,8%.
Í Bandaríkjunum lækkaði Nasdaq Composite um 1,2% á þriðjudag og S&P 500 um 0,6%, þó að vísitala futures hafi sýnt smávægilega viðspyrnu á miðvikudag.
Pólitísk óvissa magnar áhættuna
Alicia Garcia-Herrero, aðalhagfræðingur Natixis í Asíu, sagði að ríkisskuldabréf væru orðin áhættumeiri eignaflokkur þar sem stjórnmálamenn væru undir auknum þrýstingi á að auka útgjöld og halda vöxtum lágum.
Í Japan óttast fjárfestar að Shigeru Ishiba forsætisráðherra gæti neyðst til að segja af sér eftir slæmt gengi Lýðræðisflokksins í efri deild þingsins í júlí. Slík niðurstaða gæti opnað á nýjan forsætisráðherra með lýðskrumsmeiri efnahagsstefnu og aukin ríkisútgjöld.