Á mánudaginn gengu kaup alþjóðlega bifreiðasölu- og dreifingarfyrirtækisins Inchcape, sem skráð er í kauphöllinni í London, á öllum hlutum í fjórum dótturfélögum Vekru, Bílaumboðinu Öskju, Landfara, Dekkjahöllinni og Bílaumboðinu Unu, endanlega í gegn.

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, fagnar þessum tímamótum í sögu félaganna, sem hann segir afrakstur mikillar vinnu en söluferlið tók um eitt og hálft ár.

Eins og Jón Trausti hefur áður sagt frá voru viðskiptin tilkomin af frumkvæði kaupandans og voru seljendur ekki í söluhugleiðingum þegar Inchcape hafði samband. Aftur á móti hafi eigendum litist vel á hugmyndir og áætlanir Inchcape, sem sér ýmistækifæri til vaxtar hjá Öskju og systurfélögunum.

Þar að auki sé Inchcape afar öflugt félag með langa sögu en það var stofnað árið 1847. Til marks um stærð félagsins bendir Jón Trausti á að á síðasta ári hafi félagið velt liðlega 30% meira en öll félögin í íslensku kauphöllinni til samans.

„Þetta er fyrirtæki sem einbeitir sér að minni mörkuðum þar sem ákjósanleg vaxtartækifæri eru til staðar og bílaframleiðendurnir sjálfir eru ekki á þeim mörkuðum. Inchcape er þegar með starfsemi í Norður-Evrópu en þessi kaup munu auka veltu þeirra á svæðinu umtalsvert.

Þau líta á Ísland sem áhugaverðan markað sem væri  með góða umgjörð um efnahagslífið, land þar sem auðvelt er að stunda viðskipti og vaxtarhorfur markaðarins væru góðar. Það má því segja að þau hafi ákveðið að gera sér ferð til landsins til að kynna sér markaðinn enn frekar. Samhliða þessu höfðu þau samband við okkur og við kynntum þeim fyrirtækin, markaðinn og umgjörðina á Íslandi ítarlega í framhaldi. Í kjölfarið rúllaði snjóboltinn af stað sem endaði svo nú einu og hálfu ári síðar með því að viðskiptin eru endanlega gengin í gegn.“

Í samræmi við vaxtarstefnu Inchcape

Glafkos Persianis, framkvæmdastjóri Inchcape í Evrópu og Afríku, segir að hjá Inchcape sé lögð áhersla á að vera leiðandi á markaði með því að nýta vaxtartækifæri í nýjum löndum – líkt og á Íslandi – þar sem sameina megi alþjóðlega sérþekkingu Inchcape og staðbundna reynslu Öskju og systurfélaga.

„Kaupin á Öskju, Landfara, Dekkjahöllinni og Unu eru í samræmi við Accelerate+ stefnu okkar sem gengur út á vöxt fyrirtækisins, bæði hvað starfsemi varðar og landfræðilega, dýpka samstarf við bíla- og íhlutaframleiðendur með samrunum og yfirtökum sem skapa aukið virði fyrir okkar hluthafa og viðskiptavini.

Ísland, sem er alveg nýr markaður fyrir Inchcape, stækkar fótspor okkar í Norður-Evrópu og styrkir tengsl við núverandi samstarfsaðila eins og Xpeng og Mercedes-Benz en einnig nýja framleiðendur eins og Kia og Honda. Þetta er stórt skref sem undirstrikar stöðu Inchcape sem leiðandi alþjóðlegur dreifingaraðila bíla.,“ segir hann og bætir við:

„Stefna Inchcape snýst um að styrkja markaðsstöðu okkar á álitlegum mörkuðum með blöndu af innri vexti og kaupum á félögum. Við leitum að tækifærum sem fela í sér verðmætasköpun til lengri tíma og þar sem við getum stefnt að því að ná að minnsta kosti 10% markaðshlutdeild.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.