Vörusala íslenska lyfjafyrirtækisins Coripharma í júlímánuði á eigin þróuðum vörum nam rétt tæpum hálfum milljarði íslenskra króna eða 3,78 milljónum evra og hefur aldrei verið meiri í einum mánuði frá stofnun fyrirtækisins. Jafnframt var heildarvörusala Coripharma í júlí sú næst mesta frá upphafi.
Tvö lyf, bæði þróuð af Coripharma og fóru á markað á síðasta ári, reyndust langstærst. Annars vegar Bosutinib, sem er lyf við hvítblæði, og hins vegar Raltegravir, sem er lyf við HIV veirunni. Samtals voru þessi tvö lyf með sölu yfir 2 milljónir evra.
Coripharma var fyrsta samheitalyfjafyrirtækið til að setja Bosutinib á markað og er enn eini framleiðandinn að því samheitalyfi í Evrópu. Það er nú selt á 16 mörkuðum í öllum helstu löndum Evrópu.
„Eftirspurn eftir lyfinu er margfalt yfir væntingum og er búið að móttaka pantanir fyrir 7 milljónir evra á þessu ári, sem gerir það að söluhæsta lyfi Coripharma,“ segir í tilkynningu lyfjafyrirtækisins.
Coripharma er eitt af tveimur félögum sem vitað er til að hafi náð að þróa Raltegravir fyrir Evrópumarkað. Félagið segir fjölda samheitalyfjafyrirtækja hafa gert tilraunir til þess án árangurs, enda lyfið talið sérlega erfitt í þróun.
Raltegravir fór á markað í Bretlandi, Spáni og Ítalíu á síðasta ári og bættist Þýskalandsmarkaður við á öðrum ársfjórðungi 2025. Reiknað er með að lyfið fari á 8 nýja markaði í Evrópu fyrir árslok. Coripharma segir pantanir vegna Raltegravir að sama skapi vera vel yfir væntingum, en búið sé að móttaka pantanir fyrir ríflega 5 milljónir evra á árinu.
Coripharma mun setja þrjú nýlega þróuð lyf á markað í gegnum viðskiptavini sína á seinni hluta þessa árs og hafa fyrstu pantanir þegar verið mótteknar. Um 220 manns starfa hjá Coripharma.