Félag í eigu Norska athafnamannsins Michael Stang Treschow, Treschow-Fritzøe, hafur náð samkomulagi um kaup á 80% hlut í Arctic Trucks í Noregi og Svíþjóð. Örn Thomsen, framkvæmdastjóri Arctic Trucks í Noregi, verður áfram í hluthafahópi félaganna.

Þess má geta að íslenska þekkingarfyrirtækið í bifreiðaiðnaði, Arctic Trucks international ehf., er með sérleyfissamninga við Arctic Trucks í Noregi, Svíþjóð, á Íslandi og víðar.

Arctic Trucks Norway, sem er með starfsstöðvar í Solbergmoen í Drammen í Noregi, hefur afhent meira en 7.000 breytta bíla til viðskiptavina sinna. Um 40 manns starfa fyrir fyrirtækið í Noregi. Tekjur félagsins í fyrra námu 158 milljónum norskra króna, eða yfir 1,9 milljarða íslenskra króna.

Fyrirtækið er einn af stærstu þjónustuaðilum Noregs þegar kemur að því að búnaði og að breyta fjórhjóladrifnum bílum. Þá hefur Arctic Trucks Sweden einnig verið að stækka við sig en félagið opnaði nýlega verkstæði og vöruhús í Gautaborg.

Í fréttatilkynningu kemur fram að nýi aðaleigandinn Treschow-Fritzøe hyggist færa Arctic Trucks í Noregi og Svíþjóð undir nýja samstæðu sem muni leggja áherslu á öryggi og hreyfanleika.

Örn Thomsen, framkvæmdastjóri Arctic Trucks Norway.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Treschow-Fritzøe á fyrirtæki sem sérhæfa sig m.a. í skógrækt, fasteignum, stein­vinnslu, byggingarefnum og endurnýjanlegri orku. Samstæðan starfar einkum á Norðurlöndunum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)