Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) felldi nýverið niður mál Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, gegn íslenska ríkinu sem til meðferðar var fyrir dómstólnum.

Ástæðan er sú að sátt hafði náðst milli aðila um að ríkið viðurkenndi brot gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar, sem tryggður er í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu, í markaðsmisnotkunarmáli kenndu við Kaupþing. Auk þess að viðurkenna brot féllst ríkið á að greiða Ingólfi 12 þúsund evrur, andvirði um 1,8 milljónir króna á gengi dagsins, sem ætlað er að dekka bætur vegna miska og málskostnað. Byggir sáttin á dómi í máli Styrmis Þórs Bragasonar gegn ríkinu.

Mál Ingólfs bætist í langa halarófu sátta sem ríkið hefur gert en áður hafði sambærileg niðurstaða fengist í málum Magnúsar Guðmundssonar, Ívars Guðjónssonar, Sigurþórs Charles Guðmundssonar, Margrétar Jónsdóttur, Karls Wernerssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar. Þá eru ónefndir dómar í máli Sigríðar Elínar Þórðardóttur auk niðurstöðu vegna Al-Thani málsins. Alls hefur ríkið þurft að greiða kringum 100 þúsund evrur vegna lykta þessara mála fyrir MDE. Enn standa einhver mál út af.