Fjöldi þekktra knatt­spyrnu­manna í ensku úr­vals­deildinni, þar á meðal Wa­yne Roon­ey, Rio Ferdinand og Danny Murp­hy, töpuðu sam­tals yfir 100 milljónum punda, jafn­virði rúm­lega 17 milljarða króna, eftir að hafa verið blekktir inn í flókin fjár­festinga­verk­efni sem bresk skatt­yfir­völd, HMRC, stimpluðu síðar sem skattaundan­skot.

Margir leik­mannanna stóðu eftir með gífur­legar skattakröfur og þungar sektir þegar HMRC endur­mat fjár­festingarnar sem ólög­legar.

Sam­kvæmt ítar­legri rannsókn Telegraph og heimildarmynd BBC sem sýnd var að hluta í í gærkvöldi olli svindlið gríðar­legum skaða og leiddi í sumum til­fellum til gjaldþrota, sundrungar meðal fjöl­skyldu­meðlima og djúp­stæðra and­legra erfið­leika hjá fórnarlömbum.

Málið er nú borið saman við Post Office-hneykslið, stærsta réttar­fars­bóta­mál í breskri sögu. Þar voru yfir 700 starfs­menn breska póstsins rang­lega sakaðir um fjár­drátt vegna hug­búnaðar­villu í bók­halds­kerfi á árunum 1999–2015.

Margir þeirra misstu vinnuna, heimili og í sumum til­vikum frelsi áður en sak­leysi þeirra var viður­kennt mörgum árum síðar.

Kings­brid­ge og skatta­skjólin

Svindlið á sér rætur til tíunda ára­tugarins þegar fyrir­tækið Kings­brid­ge Asset Mana­gement, undir stjórn fjár­festingarráðgjafanna Kevins Mc­Mena­min og Davids McKee, fékk um­boð til að ráð­stafa fjár­magni fjölda at­vinnu­knatt­spyrnu­manna.

Þeir beindu við­skipta­vinum sínum inn í kvik­mynda­verk­efni (e. film partners­hips) sem þá nutu skatta­legs stuðnings frá breskum yfir­völdum.

Síðar komst HMRC að þeirri niður­stöðu að mörg þessara verk­efna hefðu í reynd verið einungis verið flétta til að hafa fé af skattinum fremur raun­veru­legar fjár­festingar en miklar fjár­hæðir voru settar inn sem lán til að auka á bók­fært virði fjár­festinganna.

Þegar skatt­yfir­völd hófu að endur­krefja fjár­festana um meintar ógreiddar skatta­fjár­hæðir hrundi kerfið.

Kings­brid­ge ráð­stafaði jafn­framt fjár­magni, sem við­skipta­vinir höfðu fengið endur­greitt í formi skattaívilnana, í er­lendar fast­eigna­fjár­festingar sem síðar mis­heppnuðust al­ger­lega. Því varð fjár­hagstap leik­mannanna marg­falt þegar bæði fast­eigna- og kvik­mynda­verk­efnin hrundu á sama tíma.

Lögsóknir, sakamála­rannsókn og brostnar vonir

Fjöldi leik­manna höfðaði skaða­bóta­mál á hendur Kings­brid­ge, lána­stofnunum á borð við Coutts-bankann og tryggingafélögum sem höfðu tryggt starf­semi ráðgjafanna.

Sum mál unnust að hluta en Kings­brid­ge var tekið til gjaldþrota­skipta árið 2010 og mörg mála­ferli runnu út í sandinn áður en úr­lausn fékkst.

Árið 2018 hóf City of London Police sakamála­rannsókn undir heitinu Operation Gavreel.

Rannsóknin náði meðal annars til falsaðra undir­skrifta, markaðsmis­notkunar og stór­felldra fjár­svika. Lögreglan sagði tjónið þá á að minnsta kosti 25 milljónir punda en rann­sak­endur töldu hundruð ein­stak­linga hafa orðið fyrir fjár­hags­legu tjóni.

Engar ákærur voru þó gefnar út og árið 2022 var rannsókninni lokað með vísan til ónógra sönnunar­gagna, sem mörg fórnar­lömb hafa harð­lega gagn­rýnt.

And­leg áhrif og kröfur um umbætur

Fyrr­verandi lands­liðs­maðurinn Brian Dea­ne, sem skoraði fyrsta markið í sögu úr­vals­deildarinnar árið 1992, er einn þeirra sem hafa nú stigið fram opin­ber­lega.

Hann lýsir bæði fjár­hags­legu og and­legu áfalli leik­mannanna og segir skömmina, sektina og fjár­hags­lega hrunið hafa „lokast eins og hljóð­laus klefi“ um líf margra þeirra.

Dea­ne, Murp­hy og fleiri hafa nú komið að stofnun þing­nefndarinnar Invest­ment Fraud Commi­ttee (IFC) sem þrýstir á bresk stjórn­völd að breyta verk­lagi skatt­yfir­valda þannig að fórnar­lömb fjár­svika verði ekki meðhöndluð eins og skatta­svikarar.

Þeir krefjast þess að ríkið viður­kenni þau sem fórnar­lömb efna­hags­brota og veiti bæði fjár­hags­legan og and­legan stuðning.

Danny Murp­hy segir í mynd BBC að hann hafi gripið til áfengis og fjár­hættu­spila þegar fjár­hagur hans hrundi og lýsir ástandinu sem „persónu­legu víti sem enginn utan við málið getur skilið“.

Aðrir leik­menn segja frá því hvernig fjár­hags­vandi leiddi til gjaldþrota, hjóna­skilnaða og jafn­vel sjálfs­vígs­hugsana.

Danny Murphy tjáði sig einnig um málið á Talksport í morgun sem má sjá hér að neðan.

Þing­maðurinn Alex Sobel, sem fer fyrir IFC ásamt Dea­ne, segir málið sýna brýna þörf fyrir öflugt reglu­verk um fjár­festingar at­vinnuíþrótta­fólks.

Hann bendir á að nýir markaðir á borð við raf­myntir og NFT-fjár­festingar laði nú að sér unga íþrótta­menn með miklar tekjur en litla fjár­festinga­reynslu. „Við getum ekki leyft sögunni að endur­taka sig,“ segir Sobel.

For­sætis­ráðherra Bret­lands, Sir Keir Star­mer, hefur lofað að funda með leik­mönnum og skoða leiðir til að bæta réttar­fars­lega og fjár­hags­lega stöðu fórnar­lamba fjár­svika.

Hvort nýja heimildar­myndin og þrýstingur þing­nefndarinnar nái að breyta kerfinu er óljóst.

En fyrir leik­mennina, sem töpuðu eigum sínum og í sumum til­vikum heilsunni, snýst málið ekki lengur ein­göngu um fjár­hags­legt upp­gjör heldur líka viður­kenningu á því að þeir voru fórnar­lömb stór­felldra svika en ekki ger­endur.