Fjöldi þekktra knattspyrnumanna í ensku úrvalsdeildinni, þar á meðal Wayne Rooney, Rio Ferdinand og Danny Murphy, töpuðu samtals yfir 100 milljónum punda, jafnvirði rúmlega 17 milljarða króna, eftir að hafa verið blekktir inn í flókin fjárfestingaverkefni sem bresk skattyfirvöld, HMRC, stimpluðu síðar sem skattaundanskot.
Margir leikmannanna stóðu eftir með gífurlegar skattakröfur og þungar sektir þegar HMRC endurmat fjárfestingarnar sem ólöglegar.
Samkvæmt ítarlegri rannsókn Telegraph og heimildarmynd BBC sem sýnd var að hluta í í gærkvöldi olli svindlið gríðarlegum skaða og leiddi í sumum tilfellum til gjaldþrota, sundrungar meðal fjölskyldumeðlima og djúpstæðra andlegra erfiðleika hjá fórnarlömbum.
Málið er nú borið saman við Post Office-hneykslið, stærsta réttarfarsbótamál í breskri sögu. Þar voru yfir 700 starfsmenn breska póstsins ranglega sakaðir um fjárdrátt vegna hugbúnaðarvillu í bókhaldskerfi á árunum 1999–2015.
Margir þeirra misstu vinnuna, heimili og í sumum tilvikum frelsi áður en sakleysi þeirra var viðurkennt mörgum árum síðar.
Kingsbridge og skattaskjólin
Svindlið á sér rætur til tíunda áratugarins þegar fyrirtækið Kingsbridge Asset Management, undir stjórn fjárfestingarráðgjafanna Kevins McMenamin og Davids McKee, fékk umboð til að ráðstafa fjármagni fjölda atvinnuknattspyrnumanna.
Þeir beindu viðskiptavinum sínum inn í kvikmyndaverkefni (e. film partnerships) sem þá nutu skattalegs stuðnings frá breskum yfirvöldum.
Síðar komst HMRC að þeirri niðurstöðu að mörg þessara verkefna hefðu í reynd verið einungis verið flétta til að hafa fé af skattinum fremur raunverulegar fjárfestingar en miklar fjárhæðir voru settar inn sem lán til að auka á bókfært virði fjárfestinganna.
Þegar skattyfirvöld hófu að endurkrefja fjárfestana um meintar ógreiddar skattafjárhæðir hrundi kerfið.
Kingsbridge ráðstafaði jafnframt fjármagni, sem viðskiptavinir höfðu fengið endurgreitt í formi skattaívilnana, í erlendar fasteignafjárfestingar sem síðar misheppnuðust algerlega. Því varð fjárhagstap leikmannanna margfalt þegar bæði fasteigna- og kvikmyndaverkefnin hrundu á sama tíma.
Lögsóknir, sakamálarannsókn og brostnar vonir
Fjöldi leikmanna höfðaði skaðabótamál á hendur Kingsbridge, lánastofnunum á borð við Coutts-bankann og tryggingafélögum sem höfðu tryggt starfsemi ráðgjafanna.
Sum mál unnust að hluta en Kingsbridge var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010 og mörg málaferli runnu út í sandinn áður en úrlausn fékkst.
Árið 2018 hóf City of London Police sakamálarannsókn undir heitinu Operation Gavreel.
Rannsóknin náði meðal annars til falsaðra undirskrifta, markaðsmisnotkunar og stórfelldra fjársvika. Lögreglan sagði tjónið þá á að minnsta kosti 25 milljónir punda en rannsakendur töldu hundruð einstaklinga hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.
Engar ákærur voru þó gefnar út og árið 2022 var rannsókninni lokað með vísan til ónógra sönnunargagna, sem mörg fórnarlömb hafa harðlega gagnrýnt.
Andleg áhrif og kröfur um umbætur
Fyrrverandi landsliðsmaðurinn Brian Deane, sem skoraði fyrsta markið í sögu úrvalsdeildarinnar árið 1992, er einn þeirra sem hafa nú stigið fram opinberlega.
Hann lýsir bæði fjárhagslegu og andlegu áfalli leikmannanna og segir skömmina, sektina og fjárhagslega hrunið hafa „lokast eins og hljóðlaus klefi“ um líf margra þeirra.
Deane, Murphy og fleiri hafa nú komið að stofnun þingnefndarinnar Investment Fraud Committee (IFC) sem þrýstir á bresk stjórnvöld að breyta verklagi skattyfirvalda þannig að fórnarlömb fjársvika verði ekki meðhöndluð eins og skattasvikarar.
Þeir krefjast þess að ríkið viðurkenni þau sem fórnarlömb efnahagsbrota og veiti bæði fjárhagslegan og andlegan stuðning.
Danny Murphy segir í mynd BBC að hann hafi gripið til áfengis og fjárhættuspila þegar fjárhagur hans hrundi og lýsir ástandinu sem „persónulegu víti sem enginn utan við málið getur skilið“.
Aðrir leikmenn segja frá því hvernig fjárhagsvandi leiddi til gjaldþrota, hjónaskilnaða og jafnvel sjálfsvígshugsana.
Danny Murphy tjáði sig einnig um málið á Talksport í morgun sem má sjá hér að neðan.
Þingmaðurinn Alex Sobel, sem fer fyrir IFC ásamt Deane, segir málið sýna brýna þörf fyrir öflugt regluverk um fjárfestingar atvinnuíþróttafólks.
Hann bendir á að nýir markaðir á borð við rafmyntir og NFT-fjárfestingar laði nú að sér unga íþróttamenn með miklar tekjur en litla fjárfestingareynslu. „Við getum ekki leyft sögunni að endurtaka sig,“ segir Sobel.
Forsætisráðherra Bretlands, Sir Keir Starmer, hefur lofað að funda með leikmönnum og skoða leiðir til að bæta réttarfarslega og fjárhagslega stöðu fórnarlamba fjársvika.
Hvort nýja heimildarmyndin og þrýstingur þingnefndarinnar nái að breyta kerfinu er óljóst.
En fyrir leikmennina, sem töpuðu eigum sínum og í sumum tilvikum heilsunni, snýst málið ekki lengur eingöngu um fjárhagslegt uppgjör heldur líka viðurkenningu á því að þeir voru fórnarlömb stórfelldra svika en ekki gerendur.