Fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins hefur til­kynnt áform um að leggja tolla á inn­flutning á járn­blendi og kísil frá Ís­landi og Noregi.

Ástæðan er sögð harðnandi sam­keppni á heims­markaði, m.a. of­fram­leiðsla á járn­blendi á heims­vísu sem leitt hafi til lækkaðs af­urða­verðs innan Sam­bandsins með neikvæðum áhrifum fyrir iðnaðinn þar.

Í að­sendum pistli í Morgun­blaðinu bendir Stefán Már Stefáns­son, pró­fessor emeritus og einn helsti sér­fræðingur í Evrópurétti, á að slík ein­hliða að­gerð byggist á öryggisákvæðum EES-samningsins, einkum 112. gr., en heimildin til beitingar þeirra sé afar þröng.

Mark­mið samningsins sé að tryggja fjór­frelsið; frjálst flæði vöru, þjónustu, fjár­magns og fólks – og sam­keppnis­reglur á sam­eigin­legum markaði. Tollar á vörur sem falla undir frjáls vöru­við­skipti vegi því að sjálfum undir­stöðum samningsins.

Skil­yrði fyrir beitingu öryggisákvæða

Sam­kvæmt 112. gr. EES-samningsins má aðeins beita öryggis­ráðstöfunum ef upp koma al­var­legir og viðvarandi efna­hags- eða sam­félagsörðug­leikar í til­teknum at­vinnu­greinum eða lands­hlutum. Að­gerðirnar þurfa að vera tíma­bundnar, tak­markaðar að um­fangi og raska samningnum sem minnst.

Stefán Már bendir á að þegar gripið er til ráð­stafana sem snerta sjálfan kjarna EES-samningsins, svo sem frjálst vöruflæði, sé hætt við að þær grafi undan heildar­starf­semi samningsins og skapi hættu­leg for­dæmi. Því verði að túlka heimildina þröngt og fylgja meðal­hófs­reglu í hvívetna.

„Beiting öryggisákvæða EES- samningsins á reglum fjór­frelsisins, hér frjáls vöru­við­skipti, getur auð­veld­lega vegið að undir­stöðum samningsins því að þau teljast sem fyrr segir til kjarna­at­riða hans. Rétt­mæti að­gerðarinnar verður því að fullnægja framan­greindum skil­yrðum, sbr. 112. gr., og liggja auk þess skýrt fyrir. Að­gerðirnar verða einnig að standast meðal­hófs­regluna. Við beitingu ákvæðis 112. gr. samningsins verður einnig að hafa í huga að for­dæmi geta auð­veld­lega skapast og þau for­dæmisáhrif geta síðan dregið úr virkni samningsins,” segir Stefán Már.

Réttará­greiningur og mögu­leg úrræði

Ef upp kemur ágreiningur um beitingu öryggisákvæða getur samningsaðili borið málið undir sam­eigin­legu EES-nefndina, óskað gerðar­dóms­með­ferðar eða, ef um er að ræða ákvæði sem sam­svara ESB-rétti, leitað til dómstóls ESB um túlkun.

Hins vegar liggur ekki fyrir al­mennur mögu­leiki til að hnekkja slíkum ákvörðunum fyrir dómstólum ef pólitísk sam­staða næst ekki.

Stefán Már veltir fyrir sér hvort ein­staklingar eða fyrir­tæki sem verða fyrir tjóni vegna beitingar öryggisákvæða geti átt skaða­bótarétt að Evrópurétti.

Laga­heimild til slíks virðist þó óljós nema ákvörðunin beinist sér­stak­lega að viðkomandi aðilum.

Stéfan Már undir­strikar í pistli sínum að fyrir­hugaðir tollar Evrópu­sam­bandsins á inn­flutning frá Ís­landi og Noregi snerta viðkvæmasta hluta EES-samningsins, reglurnar um frjálst vöruflæði.

Beiting öryggisákvæða á þessu sviði verður að fullnægja ströngum laga­skil­yrðum og vera í senn tíma­bundin, hóf­stillt og skýrt rökstudd til að forðast að grafið verði undan sjálfu grund­vallar­mark­miði EES-samningsins um sam­eigin­legt, sam­keppnis­hæft efna­hags­svæði.