Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilkynnt áform um að leggja tolla á innflutning á járnblendi og kísil frá Íslandi og Noregi.
Ástæðan er sögð harðnandi samkeppni á heimsmarkaði, m.a. offramleiðsla á járnblendi á heimsvísu sem leitt hafi til lækkaðs afurðaverðs innan Sambandsins með neikvæðum áhrifum fyrir iðnaðinn þar.
Í aðsendum pistli í Morgunblaðinu bendir Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus og einn helsti sérfræðingur í Evrópurétti, á að slík einhliða aðgerð byggist á öryggisákvæðum EES-samningsins, einkum 112. gr., en heimildin til beitingar þeirra sé afar þröng.
Markmið samningsins sé að tryggja fjórfrelsið; frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks – og samkeppnisreglur á sameiginlegum markaði. Tollar á vörur sem falla undir frjáls vöruviðskipti vegi því að sjálfum undirstöðum samningsins.
Skilyrði fyrir beitingu öryggisákvæða
Samkvæmt 112. gr. EES-samningsins má aðeins beita öryggisráðstöfunum ef upp koma alvarlegir og viðvarandi efnahags- eða samfélagsörðugleikar í tilteknum atvinnugreinum eða landshlutum. Aðgerðirnar þurfa að vera tímabundnar, takmarkaðar að umfangi og raska samningnum sem minnst.
Stefán Már bendir á að þegar gripið er til ráðstafana sem snerta sjálfan kjarna EES-samningsins, svo sem frjálst vöruflæði, sé hætt við að þær grafi undan heildarstarfsemi samningsins og skapi hættuleg fordæmi. Því verði að túlka heimildina þröngt og fylgja meðalhófsreglu í hvívetna.
„Beiting öryggisákvæða EES- samningsins á reglum fjórfrelsisins, hér frjáls vöruviðskipti, getur auðveldlega vegið að undirstöðum samningsins því að þau teljast sem fyrr segir til kjarnaatriða hans. Réttmæti aðgerðarinnar verður því að fullnægja framangreindum skilyrðum, sbr. 112. gr., og liggja auk þess skýrt fyrir. Aðgerðirnar verða einnig að standast meðalhófsregluna. Við beitingu ákvæðis 112. gr. samningsins verður einnig að hafa í huga að fordæmi geta auðveldlega skapast og þau fordæmisáhrif geta síðan dregið úr virkni samningsins,” segir Stefán Már.
Réttarágreiningur og möguleg úrræði
Ef upp kemur ágreiningur um beitingu öryggisákvæða getur samningsaðili borið málið undir sameiginlegu EES-nefndina, óskað gerðardómsmeðferðar eða, ef um er að ræða ákvæði sem samsvara ESB-rétti, leitað til dómstóls ESB um túlkun.
Hins vegar liggur ekki fyrir almennur möguleiki til að hnekkja slíkum ákvörðunum fyrir dómstólum ef pólitísk samstaða næst ekki.
Stefán Már veltir fyrir sér hvort einstaklingar eða fyrirtæki sem verða fyrir tjóni vegna beitingar öryggisákvæða geti átt skaðabótarétt að Evrópurétti.
Lagaheimild til slíks virðist þó óljós nema ákvörðunin beinist sérstaklega að viðkomandi aðilum.
Stéfan Már undirstrikar í pistli sínum að fyrirhugaðir tollar Evrópusambandsins á innflutning frá Íslandi og Noregi snerta viðkvæmasta hluta EES-samningsins, reglurnar um frjálst vöruflæði.
Beiting öryggisákvæða á þessu sviði verður að fullnægja ströngum lagaskilyrðum og vera í senn tímabundin, hófstillt og skýrt rökstudd til að forðast að grafið verði undan sjálfu grundvallarmarkmiði EES-samningsins um sameiginlegt, samkeppnishæft efnahagssvæði.