Kerecis og móðurfyrirtækið Coloplast kynntu í gær nýja fimm ára áætlun samstæðunnar á fjárfestadegi í Kaupmannahöfn.

Á fundinum kynnti Guðmundur Fertram áform næstu ára fyrir Kerecis sem byggir á áframhaldandi hröðum vexti í Bandaríkjunum, nýjum samþættum vörum búnar til úr sáraroði og hefðbundum sáraumbúðarefnum og kynslóð 2 af sáraroðinu sem framlengja munu einkaleyfi tækninnar um 20 ár og tryggja áframhaldandi tækniforskot Kerecis.

Coloplast-samstæðan kynnti einnig ný fjárhagsmarkmið fyrir tímabilið sem felur í sér viðmið um 7–8% innri vöxt, sem er lækkun frá fyrri markmiðum um 8%–10% árlegan vöxt. Velta Coloplast í ár er áætluð um 500 milljarðar króna, en þar af má rekja um 5% til Kerecis. Vöxtur Kerecis er hins vegar talsvert hraðari en hjá samstæðunni í heild sinni.

Greiningaraðilar tóku ágætlega í nýja áætlun og hefur hlutabréfagengi félagsins staðið í stað frá því að félagið birti kynnti markmið um lægri tekjuvöxt. Greinendur Jyske Bank og JP Morgan lýstu markmiðunum sem raunhæfum fyrir framtíðar forstjóra félagsins, að því er segir í umfjöllun Børsen.

Meðal banka og greiningaraðila sem hafa skrifað um fundinn í dag er Danske Bank. Í viðbrögðum bankans við kynningu Coloplast, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, lýsir greinandi bankans því að hann hafi verið hrifinn af kynningu sára- og viðgerðarsviðs Coloplast, sem Guðmundur Fertram stýrir. Markaðsdagurinn hafi staðfest stöðu Kerecis sem mikilvæg eining til að drífa áfram vöxt samstæðunnar (e. key growth driver) á sviði sárameðferða.

„Það er gaman að sjá að greiningaraðilarnir hafi verið svona jákvæðir gagnvart nýju heildarrekstaráætlun Coloplast, og sérstaklega gaman að sjá hversu margir nefndu Kerecis og hvernig þeir sjá Kerecis sem þá einingu í samsteypunni sem drífa mun áfram vöxtinn næstu ár,“ segir Guðmundur Fertram í samtali við Viðskiptablaðið.

„Vöruþróunin okkar gengur vel og ég sýndi á fundinum nýjar frumgerðir á fjölefnavörum sem innihalda bæði sáraroðið og hefðbundin sáraumbúðarefni.“

Glæra úr kynningu Guðmundar Fertrams í gær. Tekjuvöxtur Kerecis á síðasta ársfjórðungi var 16%, sem dró aðeins niður áætlun fyrir yfirstandandi fjárhagsár sem lýkur 30. september. Lægri vöxtur á síðasta fjórðungi tengist breytingum á endurgreiðs