Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands stendur frammi fyrir sífellt erfiðari aðstæðum þegar hún undirbýr annað fjárlagafrumvarp sitt sem verður kynnt 26. nóvember.
Samkvæmt hagfræðingum gæti hún þurft að finna a.m.k. 20 milljarða punda til að jafna opinber fjármál, en merki eru um að staðan versni frekar en hitt á komandi mánuðum.
Breski fjölmiðillinn Telegraph hefur tekið saman fimm ástæður fyrir að það staðan gæti versnað töluvert fram að kynningu fjárlagafrumvarpinu.
Hærri ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf
Ávöxtunarkrafa á 30 ára ríkisskuldabréf Bretlands er nú sú hæsta frá árinu 1998. Það þýðir að ríkið þarf að greiða sífellt hærri vexti af nýjum lánum, sem eykur kostnað ríkissjóðs verulega.
Á þessu ári hefur breska skuldastýringarskrifstofan (Debt Management Office) þegar safnað 144 milljörðum punda á skuldabréfamarkaði, tæplega helmingi af þeirri fjárhæð sem áætlað er að safna á árinu.
Samkvæmt útreikningum Capital Economics gæti hækkun á ávöxtunarkröfu frá því í vor kostað ríkissjóð 5,8 milljarða punda til viðbótar á ári hverju.
Verðbólgan þrýstir vöxtum upp
Bretland glímir einnig við þráláta verðbólgu sem mældist 3,8% í júlí. Mun það vera hæsta gildi innan G7-ríkjanna.
Seðlabanki Bretlands spáir að hún fari í 4% á næstu mánuðum, tvöfalt umfram markmið bankans. Þetta veldur því að fjárfestar krefjast hærri ávöxtunar af skuldabréfum, sem þrýstir skuldakostnaði ríkisins enn frekar upp.
Vaxtalækkanir tefjast
Seðlabanki Bretlands lækkaði stýrivexti í ágúst úr 4,25% í 4%, en með afar naumum meirihluta. Fjárfestar búast nú við að vextir verði hærri lengur en áður var talið, sem mun auka vaxtakostnað ríkisins og þrengja svigrúm ráðherrans til nýrra útgjalda.
Hagkerfið kólnar
Atvinnuleysi hefur aukist í Bretlandi, úr 4,3% í fyrra í 4,7% nú og gæti farið í 5% á næsta ári. Færri í vinnu þýðir minni skatttekjur og hærri útgjöld til bótakerfa – samsetning sem versnar þegar ríkið þarf þegar á auknum tekjum að halda.
Óvissa á alþjóðamörkuðum
Fjármálakreppa gæti einnig breiðst út frá Frakklandi, þar sem ríkisstjórn François Bayrou stendur frammi fyrir vantrauststillögu vegna hallarekstrar ríkissjóðs. Ef hún fellur gætu fjárfestar flúið bæði franska og breska skuldabréfamarkaði, þar sem skuldastaða ríkjanna er svipuð.