Ísgerðin Kjörís í Hveragerði hagnaðist um 10,7 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við 41,5 milljóna króna tap á árinu 2023, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

„Ágætur viðsnúningur hefur orðið í rekstri Kjöríss á liðnu ári og hefur náðst að snúa tapi í hagnað,“ segir stjórn félagsins.

Velta Kjöríss jókst um 6,6% milli ára og nam 1,56 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 1,47 milljarða króna árið 2023. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 62 milljónum króna en félagið skilaði 10 milljóna króna rekstrartapi árið áður.

„Rekstur ísverksmiðju er ávallt að nokkru háður veðri sem var ekki hagstætt, sér í lagi fyrri hluta árs. En með vörunýjungum og öðruvísi markaðsnálgun glæddist salan verulega á síðari hluta ársins,“ segir í skýrslu stjórnar.

Hreinn fjármagnskostnaður félagsins nam 48,7 milljónum króna í fyrra, samanborið við 41,9 milljónir árið áður.

„Fjármagnskostnaður er talsverður á liðnu ári en með lægri vöxtum og stöðugra rekstrarumhverfi verður unnt að lækka þann kostnað. Nýr vélbúnaður ásamt hagræðingum í rekstri hefur skilað ágætum árangri og þarf áfram að vinna á sömu braut til að hagnaður verði viðunandi.“

Félagið tók ný langtímalán að fjáræð 400 milljónir króna en greiddi niður aðrar skuldir fyrir 340 milljónir króna. Eignir Kjöríss námu 892 milljónum króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 260 milljónir.

Kjörís er í jafnri eigu systkinanna Aldísar, Guðrúnar, Sigurbjargar og Valdimars Hafsteinsbarna. Valdimar er framkvæmdastjóri félagsins, sem er með höfuðstöðvar í Hveragerði. Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Sjálfstæðisflokksins.

Systurfyrirtæki Kjöríss, Steingerði ehf., á fasteignina að Austurmörk 15 í Hveragerði sem hýsir starfsemi ísgerðarinnar. Fasteignin var bókfærð á 302 milljónir króna í árslok 2024.