Ragna Árnadóttir tók við sem forstjóri Landsnets þann 1. júlí sl. en hún tók við starfinu af Guðmundi Inga Ásmundssyni, sem hafði verið forstjóri frá árinu 2015.

Ragna hafði áður starfað sem skrifstofustjóri Alþingis frá árinu 2019 en þar áður starfaði hún hjá Landsvirkjun frá árinu 2010, fyrst sem skrifstofustjóri en árið 2012 tók hún við sem aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Hún býr því yfir víðtækri reynslu og þekkingu á orkumálum.

„Það er skemmtilegt og mjög áhugavert að koma aftur í orkugeirann. Það hefur ýmislegt breyst og það virðist vera mun breiðari stuðningur meðal almennings við að byggja upp nauðsynlega  orkuinnviði og hafa ákveðna hluti í lagi,“ segir Ragna. Að auki hafi umræðan um náttúruvernd breyst.

„Þótt hún hafi aðeins færst í vöxt núna undanfarið þá finnst mér hún ekki jafn áberandi og hún var. Við búum í stórkostlega fallegu landi, og við því á að gangast, en auðlindirnar þarf að nýta með skynsömum hætti. Málið er að finna hinn gullna meðalveg.“

Nýtt fólk er nú í brúnni hjá Landsneti en stjórninni var einnig skipt út í heild sinni fyrr í ár. Að sögn Rögnu eru allir vongóðir um að geta haldið áfram með nauðsynlega uppbyggingu í kerfinu.

„Framundan er stefnumótunarvinna og þar eru grundvallarspurningar sem þarf að ræða og ákveða hvernig á að nálgast hlutina. En fyrir mér er það forgangsmál að greina hvar skórinn kreppir þegar kemur að lagningu háspennulína, hvar eru hindranirnar, hvað liggur að baki, er eitthvað sem við getum gert öðruvísi hjá Landsneti, þarf að breyta einhverju í lagaumhverfinu og hvað er það. Ég er í þeim fasa núna að gera mér grein fyrir því hvað það er sem þarf til,“ segir Ragna.

„Þetta eru rosalega spennandi og áhugaverðir tímar en líka mjög krefjandi, það er staðreyndin.“

Nánar er rætt við Rögnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.