Mennta- og barnamálaráðuneytið og undirstofnanir þess hafa frá árinu 2017 greitt ónafngreindum einstaklingum samtals um 23 milljónir króna fyrir fræðslu, fyrirlestra og ráðgjöf á sviði jafnréttismála og kynjafræði.
Þrátt fyrir að um opinbera fjármuni sé að ræða neitar ráðuneytið að nafngreina þá sem fengu greiðslurnar með vísan til persónuverndarsjónarmiða.
Í svari mennta- og barnamálaráðherra við skriflegri fyrirspurn Snorra Mássonar þingmanns Miðflokksins um útgjöld ráðuneytisins og undirstofnana þess til jafnréttismála og kynjafræði kemur fram að frá árinu 2017 hafi verið varið um 76 milljónum króna til slíkra verkefna.
Ónafngreindur með 9 milljónir
Um er að ræða þjónustu, ráðgjöf, stefnumótun og fræðslu sem útvistað hefur verið til félaga, fyrirtækja og einstaklinga.
Það vekur þó athygli að þeir sem veittu fræðsluna eru einungis skráðir sem „einstaklingur“ í sundurliðunum. Afleiðingin er sú að tugir milljóna króna hafa runnið úr ríkissjóði til óþekktra aðila til að sjá um fræðslu í skólum.
Ráðuneytið nafngreinir þó stofnanir líkt og Unicef Íslands eða Samtökin 78.
Þá eru tónlistarkonurnar GDRN og GusGusar einnig nefndar í gögnunum en greinilega hafa persónuverndarsjónarmið hafa ekki staðið í vegi fyrir því að birta listamannsnöfn.
Þær tóku þátt í jafnréttisdegi í Borgarholtsskóla og má ætla greiðslan sé fyrir að flytja tónlist á dögunum.
Langhæsta greiðslan til einstaklings var hjá Menntamálastofnun. Þar fékk ónafngreindur aðili rúmlega 9 milljónir króna fyrir starf í fagráði um eineltismál í grunn- og framhaldsskólum á árunum 2018–2023.
Aðrir fengu einnig háar greiðslur fyrir þátttöku í sama fagráði, allt frá 1,3 milljónum til rúmlega 2,7 milljóna króna hver.
Aðrir einstaklingar fengu minni fjárhæðir, yfirleitt á bilinu 20–200 þúsund krónur fyrir fyrirlestra eða námskeið í framhaldsskólum.
Fjöldi framhaldsskóla keypti fræðsluþjónustu af ónafngreindum einstaklingum sem fengu greitt fyrir að koma í einn eða tvo tíma. Algengt var að greitt væri 20–75 þúsund krónur fyrir slíkan fyrirlestur eða námskeið.

Þetta á t.d. við um Borgarholtsskóla, Fjölbrautaskólann á Vesturlandi, Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Flensborgarskólann, Kvennaskólann í Reykjavík, Framhaldsskólann á Laugum og Menntaskólann í Kópavogi. Í Menntaskólanum í Kópavogi voru skráðar ítrekaðar greiðslur til einstaklinga sem námu samtals rúmlega 1,1 milljón króna.
Þrátt fyrir að ráðuneytið kveði á um að persónuvernd standi í vegi fyrir nafngreiningu, er ljóst að hér er um að ræða opinbera fjármuni sem varið hefur verið til þjónustu.
Í svarinu kemur fram að efni fræðslunnar var misjafnt.

Einnig voru nefndir sérstakir „jafnréttisdagar“ í einstökum skólum þar sem einstaklingar tóku að sér framsögu eða tónlistaratriði gegn þóknun.
Ómögulegt fyrir almenning að vita hverjir veittu þjónustuna og hvaða aðilar hafa í raun fengið tugmilljónir króna úr ríkissjóði.