Mennta- og barnamálaráðuneytið og undirstofnanir þess hafa frá árinu 2017 greitt ónafngreindum einstaklingum samtals um 23 milljónir króna fyrir fræðslu, fyrirlestra og ráðgjöf á sviði jafnréttismála og kynjafræði.

Þrátt fyrir að um opinbera fjármuni sé að ræða neitar ráðuneytið að nafngreina þá sem fengu greiðslurnar með vísan til persónu­verndar­sjónar­miða.

Í svari mennta- og barna­málaráðherra við skrif­legri fyrir­spurn Snorra Más­sonar þing­manns Miðflokksins um út­gjöld ráðu­neytisins og undir­stofnana þess til jafn­réttis­mála og kynja­fræði kemur fram að frá árinu 2017 hafi verið varið um 76 milljónum króna til slíkra verk­efna.

Ónafngreindur með 9 milljónir

Um er að ræða þjónustu, ráðgjöf, stefnumótun og fræðslu sem út­vistað hefur verið til félaga, fyrir­tækja og ein­stak­linga.

Það vekur þó at­hygli að þeir sem veittu fræðsluna eru einungis skráðir sem „ein­stak­lingur“ í sundur­liðunum. Afleiðingin er sú að tugir milljóna króna hafa runnið úr ríkissjóði til óþekktra aðila til að sjá um fræðslu í skólum.

Ráðu­neytið nafn­greinir þó stofnanir líkt og Unicef Ís­lands eða Samtökin 78.

Þá eru tón­listar­konurnar GDRN og Gus­Gusar einnig nefndar í gögnunum en greinilega hafa persónu­verndar­sjónar­mið hafa ekki staðið í vegi fyrir því að birta lista­mannsnöfn.

Þær tóku þátt í jafnréttisdegi í Borgarholtsskóla og má ætla greiðslan sé fyrir að flytja tónlist á dögunum.

Lang­hæsta greiðslan til ein­stak­lings var hjá Mennta­mála­stofnun. Þar fékk ónafn­greindur aðili rúm­lega 9 milljónir króna fyrir starf í fagráði um ein­eltis­mál í grunn- og fram­halds­skólum á árunum 2018–2023.

Aðrir fengu einnig háar greiðslur fyrir þátt­töku í sama fagráði, allt frá 1,3 milljónum til rúm­lega 2,7 milljóna króna hver.

Aðrir ein­staklingar fengu minni fjár­hæðir, yfir­leitt á bilinu 20–200 þúsund krónur fyrir fyrir­lestra eða nám­skeið í fram­halds­skólum.

Fjöldi fram­halds­skóla keypti fræðsluþjónustu af ónafn­greindum ein­stak­lingum sem fengu greitt fyrir að koma í einn eða tvo tíma. Al­gengt var að greitt væri 20–75 þúsund krónur fyrir slíkan fyrir­lestur eða nám­skeið.

Fjölmargir einstaklingar hafa haldið fyrirlestra fyrir framhaldsskólanema í MK.
Fjölmargir einstaklingar hafa haldið fyrirlestra fyrir framhaldsskólanema í MK.

Þetta á t.d. við um Borgar­holts­skóla, Fjöl­brauta­skólann á Vestur­landi, Fjöl­brauta­skólann í Garða­bæ, Flens­borgar­skólann, Kvenna­skólann í Reykja­vík, Fram­halds­skólann á Laugum og Mennta­skólann í Kópa­vogi. Í Mennta­skólanum í Kópa­vogi voru skráðar ítrekaðar greiðslur til ein­stak­linga sem námu sam­tals rúm­lega 1,1 milljón króna.

Þrátt fyrir að ráðu­neytið kveði á um að persónu­vernd standi í vegi fyrir nafn­greiningu, er ljóst að hér er um að ræða opin­bera fjár­muni sem varið hefur verið til þjónustu.

Í svarinu kemur fram að efni fræðslunnar var mis­jafnt.

„Einstaklingur“ hefur veitt fjölmarga fyrirlestra í framhaldsskólum.
„Einstaklingur“ hefur veitt fjölmarga fyrirlestra í framhaldsskólum.

Einnig voru nefndir sér­stakir „jafn­réttis­dagar“ í einstökum skólum þar sem ein­staklingar tóku að sér framsögu eða tón­listar­at­riði gegn þóknun.

Ómögu­legt fyrir al­menning að vita hverjir veittu þjónustuna og hvaða aðilar hafa í raun fengið tug­milljónir króna úr ríkis­sjóði.