Þrátt fyrir að margir almennir fjárfestar í Danmörku hafi nýtt gengisfall Novo Nordisk til að bæta við sig bréfum, telja danskir markaðs- og skattasérfræðingar að það geti verið skynsamlegt að fara þveröfuga leið, að selja bréfin með tapi til að hámarka skattaleg fríðindi.
Ný gögn frá Seðlabanka Danmerkur sýna að almenningur keypti 7,8 milljónir hluta í Novo Nordisk frá júní til júlí, þrátt fyrir að gengi bréfanna félli um 23% á einum viðskiptadegi í júlí.
Í lok mánaðarins áttu almennir fjárfestar bréf í lyfjarisanum að markaðsvirði 84,5 milljarða danskra króna, og samkvæmt nýjum tölum frá Nordnet var Novo Nordisk mest keypta hlutabréfið í ágúst.
Danski viðskiptamiðilinn Børsen greinir frá.
En samkvæmt sérfræðingum getur það verið skynsamlegt að selja bréf með tapi, einkum ef þau eru í hefðbundnum verðbréfareikningi.
„Margir eiga erfitt með að selja bréf sem hafa lækkað í verði en með því að gera það geturðu fengið frádrátt á móti öðrum hagnaði og þannig lækkað skattgreiðsluna,“ segir Poul Arne Sønderskov Plet, sérfræðingur í skattamálum hjá Formue Danmark.
Bettina Brask, sérfræðingur í fjárhagsmálum hjá Jyske Bank, bætir við að þetta geti verið sérstaklega hagkvæmt fyrir þá sem greiða hæsta hlutabréfaskattinn, eða 42%.
„Ef þú selur bréf með tapi og notar tapið til að vega á móti hagnaði á öðrum bréfum geturðu frestað skattgreiðslum eða jafnvel forðast þær að hluta,“ segir hún.
Aðferðin felst í því að selja bæði bréf sem hafa hækkað og lækkað í verði, nýta tapið til að jafna út skattgreiðslur á hagnaðinn og kaupa síðan bréfin sem voru seld með tapi aftur eftir nokkra daga.
Hins vegar vara sérfræðingar við að danska skattkerfið noti svokallaða meðaltalsaðferð til að reikna út hagnað og tap. Það þýðir að ef fjárfestir hefur keypt bréf á mismunandi tímum og verðum er miðað við meðaltalsverð við útreikning á hagnaði eða tapi.
Ef fjárfestir keypti Novo Nordisk bréf á 185 danskar krónur árið 2015, en einnig á 1.005 krónur árið 2022, og selur þau í dag á 362 krónur, verður meðaltalsverðið 595 krónur. Þar með myndast bókfært tap, þrátt fyrir að sum bréfin hafi hækkað í verði.
„Þú þarft að gæta þess að selja ekki bréf sem þú keyptir ódýrt fyrir löngu, því þá geturðu staðið frammi fyrir skattlagningu á hagnaði sem þú áttir ekki von á,“ segir Sønderskov Plet.