Þrátt fyrir að margir al­mennir fjár­festar í Dan­mörku hafi nýtt gengis­fall Novo Nor­disk til að bæta við sig bréfum, telja danskir markaðs- og skattasér­fræðingar að það geti verið skyn­sam­legt að fara þveröfuga leið, að selja bréfin með tapi til að há­marka skatta­leg fríðindi.

Ný gögn frá Seðla­banka Dan­merkur sýna að al­menningur keypti 7,8 milljónir hluta í Novo Nor­disk frá júní til júlí, þrátt fyrir að gengi bréfanna félli um 23% á einum við­skipta­degi í júlí.

Í lok mánaðarins áttu al­mennir fjár­festar bréf í lyfjarisanum að markaðsvirði 84,5 milljarða danskra króna, og sam­kvæmt nýjum tölum frá Nor­d­net var Novo Nor­disk mest keypta hluta­bréfið í ágúst.

Danski viðskiptamiðilinn Børsen greinir frá.

En sam­kvæmt sér­fræðingum getur það verið skyn­sam­legt að selja bréf með tapi, einkum ef þau eru í hefðbundnum verðbréfa­reikningi.

„Margir eiga erfitt með að selja bréf sem hafa lækkað í verði en með því að gera það geturðu fengið frádrátt á móti öðrum hagnaði og þannig lækkað skatt­greiðsluna,“ segir Poul Arne Sønder­skov Plet, sér­fræðingur í skatta­málum hjá Formu­e Dan­mark.

Bettina Brask, sér­fræðingur í fjár­hags­málum hjá Jyske Bank, bætir við að þetta geti verið sér­stak­lega hag­kvæmt fyrir þá sem greiða hæsta hluta­bréfa­skattinn, eða 42%.

„Ef þú selur bréf með tapi og notar tapið til að vega á móti hagnaði á öðrum bréfum geturðu frestað skatt­greiðslum eða jafn­vel forðast þær að hluta,“ segir hún.

Að­ferðin felst í því að selja bæði bréf sem hafa hækkað og lækkað í verði, nýta tapið til að jafna út skatt­greiðslur á hagnaðinn og kaupa síðan bréfin sem voru seld með tapi aftur eftir nokkra daga.

Hins vegar vara sér­fræðingar við að danska skatt­kerfið noti svo­kallaða meðaltalsað­ferð til að reikna út hagnað og tap. Það þýðir að ef fjár­festir hefur keypt bréf á mis­munandi tímum og verðum er miðað við meðaltals­verð við út­reikning á hagnaði eða tapi.

Ef fjár­festir keypti Novo Nor­disk bréf á 185 danskar krónur árið 2015, en einnig á 1.005 krónur árið 2022, og selur þau í dag á 362 krónur, verður meðaltals­verðið 595 krónur. Þar með myndast bók­fært tap, þrátt fyrir að sum bréfin hafi hækkað í verði.

„Þú þarft að gæta þess að selja ekki bréf sem þú keyptir ódýrt fyrir löngu, því þá geturðu staðið frammi fyrir skatt­lagningu á hagnaði sem þú áttir ekki von á,“ segir Sønder­skov Plet.