Fjár­festar og greiningaraðilar líta nú á tekjur af tollum Donalds Trump Bandaríkja­for­seta sem lykilþátt í að halda aftur af vaxandi lántöku ríkis­sjóðs, samkvæmt Financial Times.

Þetta er viðsnúningur frá því í vor þegar um­fangs­mikil tolla­stríð for­setans leiddu til sárs­auka­fullrar sölu á ríkis­skulda­bréfum og ótta við efna­hags­á­fall.

Trump hefur lagt á víðtæka tolla á helstu við­skiptalönd Bandaríkjanna.

Þótt það hafi raskað alþjóð­legum mörkuðum í apríl vonast markaðsaðilar nú til að hundruð milljarða dollara tekna af þessum gjöldum vegi upp á móti skattalækkunum for­setans og dragi úr þörf ríkis­sjóðs til að auka skulda­bréfaút­gáfu.

Sam­kvæmt nýjustu spá óháðu fjár­laga­nefndar þingsins (CBO) er gert ráð fyrir að tollarnir skili ríkinu 4.000 milljörðum dala á næstu tíu árum.

Það myndi nánast jafna út tekju­tapið af skattalækkunum sem sömu aðilar meta að auki skuldirnar um 4.100 milljarða dala.

Greiningaraðilar segja tollana þannig vera í raun eina leið stjórn­valda til að hemja skuldasöfnun til skemmri tíma.

„Ef þessar tekjur hverfa skyndi­lega erum við í vand­ræðum,“ segir Andy Brenner, yfir­maður alþjóð­legra skulda­bréfa hjá NatAlli­ance Secu­rities við FT.

Óvissan jókst í lok síðustu viku þegar áfrýjunar­dómstóll stað­festi að for­setinn hefði farið út fyrir vald­heimildir sínar með hluta af tollunum.

Þó héldu gjöldin gildi sínu á meðan Hvíta húsið undir­býr mál til Hæstaréttar. Þessi réttaróvissa varð kveikjan að nýrri sölu ríkis­skulda­bréfa fyrr í vikunni.

„Ef megin­þungi tollaaðgerðanna fellur úr gildi geta sumir fagnað, því verðbólga og vextir kunna að lækka,“ segir Thierry Wizman, sér­fræðingur hjá Macqu­ari­e.

„En ef skuldir og halli verða þá í brenni­depli gæti skulda­bréfa­markaðurinn brugðist harka­lega.“

Alþjóð­legar láns­hæfis­mats­stofnanir á borð við S&P og Fitch hafa látið að því liggja að tolla­tekjurnar hafi vegið þungt þegar ákveðið var að fara ekki í frekari lækkun á láns­hæfis­mati Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir þetta vara fjár­festar við að skulda­vandi ríkisins sé langtum stærri en svo.

Sam­kvæmt CBO mun skulda­hlut­fall Bandaríkjanna fara fram úr sögu­legu há­marki seinni heims­styrj­aldarinnar fyrir árið 2029 ef tolla­tekjur hverfa.

„Tollarnir hjálpa vissu­lega til við að plástra skarð í fjár­lögin,“ segir Des Lawrence hjá Sta­te Street Invest­ment Mana­gement.

„En stærra vanda­málið er að Bandaríkin eyða miklu meiru en þau afla.“