Fjárfestar og greiningaraðilar líta nú á tekjur af tollum Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem lykilþátt í að halda aftur af vaxandi lántöku ríkissjóðs, samkvæmt Financial Times.
Þetta er viðsnúningur frá því í vor þegar umfangsmikil tollastríð forsetans leiddu til sársaukafullrar sölu á ríkisskuldabréfum og ótta við efnahagsáfall.
Trump hefur lagt á víðtæka tolla á helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna.
Þótt það hafi raskað alþjóðlegum mörkuðum í apríl vonast markaðsaðilar nú til að hundruð milljarða dollara tekna af þessum gjöldum vegi upp á móti skattalækkunum forsetans og dragi úr þörf ríkissjóðs til að auka skuldabréfaútgáfu.
Samkvæmt nýjustu spá óháðu fjárlaganefndar þingsins (CBO) er gert ráð fyrir að tollarnir skili ríkinu 4.000 milljörðum dala á næstu tíu árum.
Það myndi nánast jafna út tekjutapið af skattalækkunum sem sömu aðilar meta að auki skuldirnar um 4.100 milljarða dala.
Greiningaraðilar segja tollana þannig vera í raun eina leið stjórnvalda til að hemja skuldasöfnun til skemmri tíma.
„Ef þessar tekjur hverfa skyndilega erum við í vandræðum,“ segir Andy Brenner, yfirmaður alþjóðlegra skuldabréfa hjá NatAlliance Securities við FT.
Óvissan jókst í lok síðustu viku þegar áfrýjunardómstóll staðfesti að forsetinn hefði farið út fyrir valdheimildir sínar með hluta af tollunum.
Þó héldu gjöldin gildi sínu á meðan Hvíta húsið undirbýr mál til Hæstaréttar. Þessi réttaróvissa varð kveikjan að nýrri sölu ríkisskuldabréfa fyrr í vikunni.
„Ef meginþungi tollaaðgerðanna fellur úr gildi geta sumir fagnað, því verðbólga og vextir kunna að lækka,“ segir Thierry Wizman, sérfræðingur hjá Macquarie.
„En ef skuldir og halli verða þá í brennidepli gæti skuldabréfamarkaðurinn brugðist harkalega.“
Alþjóðlegar lánshæfismatsstofnanir á borð við S&P og Fitch hafa látið að því liggja að tollatekjurnar hafi vegið þungt þegar ákveðið var að fara ekki í frekari lækkun á lánshæfismati Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir þetta vara fjárfestar við að skuldavandi ríkisins sé langtum stærri en svo.
Samkvæmt CBO mun skuldahlutfall Bandaríkjanna fara fram úr sögulegu hámarki seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir árið 2029 ef tollatekjur hverfa.
„Tollarnir hjálpa vissulega til við að plástra skarð í fjárlögin,“ segir Des Lawrence hjá State Street Investment Management.
„En stærra vandamálið er að Bandaríkin eyða miklu meiru en þau afla.“