Ólga virðist vera innan tæknirisans Meta þessa dagana en Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, hefur lagt mikla áherslu á að þróa gervigreindarhluta fyrirtækisins. Samhliða hefur hann ráðist í mikla endurnýjun á starfsfólki og hafa einstaklingar á borð við Shengjia Zhao, sem er einn höfunda Chat GPT, og Alexandr Wang, fyrrum forstjóri Scale AI, tekið við mikilvægum stöðum í framkvæmdastjórn Meta.
Að því er segir í frétt Financial Times hafa margir starfsmenn, bæði þeir sem eru nýir og þeir sem hafa starfað hjá Meta um árabil, ákveðið að segja skilið við fyrirtækið að undanförnu. Zhao hótaði einnig að yfirgefa fyrirtækið og fara aftur yfir til OpenAI. Í síðasta mánuði var ráðist í enn eina endurskipulagninguna á gervigreindarhluta Meta en í minnisblaði sem FT hefur undir höndum kemur fram að nýjar ráðningar hafi verið settar í biðstöðu og ekki sé útilokað að ráðist verði í uppsagnir.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.