Amaroq Minerals, sem sérhæfir sig í þróun námuvinnsluverkefna í Grænlandi, greindi frá því í gær að tveir æðstu stjórnendur félagsins hafi aukið hlut sinn í félaginu með kaupum á hlutabréfum.
Samkvæmt tilkynningu keypti Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, alls 95.693 innstæðuskírteini (e. depository receipts) á Nasdaq Iceland, sem jafngilda hefðbundnum hlutabréfum í félaginu.
Kaupverðið var 104,5 krónur á skírteini.
Innistæðuskírteini tákna í reynd bara eignarhald á hlutabréfum sem geymd eru erlendis.
Hvert slíkt skírteini stendur fyrir ákveðinn fjölda hluta í félaginu og veitir sömu réttindi og bein eignarhlutdeild, til dæmis atkvæðisrétt og rétt til arðs.
Heildarvirði kaupanna er um 10 milljónir króna.
Jafnframt keypti Ellert Arnarson, fjármálastjóri félagsins, 45.000 hlutabréf á verði 1,25 kanadadalir á hlut á TSX Venture Exchange í Kanada.
Það jafngildir um 56.250 kanadadölum sem samsvarar rúmum 5 milljónum króna á gengi dagsins.
Viðskiptin voru framkvæmd daginn áður en þau voru tilkynnt til markaðar, en samkvæmt reglum ber stjórnendum skráðra félaga að upplýsa opinberlega um öll slík viðskipti.