Svens ehf., sem rekur ellefu niktótínpúðaverslanir, hagnaðist um tæplega 147 milljónir króna í fyrra, samanborið við 87 milljónir króna árið áður. Félagið hyggst greiða út 50 milljónir króna í arð, en til samanburðar greiddi það út 100 milljónir króna á síðasta ári.
Velta Svens jókst um 20,6% milli ára og nam 1.666 milljónum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins jókst úr 106 milljónum í 187 milljónir milli ára.
Birgðastaðan jókst um 200 milljónir
Eignir félagsins voru bókfærðar á 555 milljónir króna í lok síðasta árs, samanborið við 293 milljónir árið áður. Munurinn skýrist einkum af því að birgðir félagsins fóru úr 95 milljónum í 309 milljónir milli ára. Eigið fé félagsins nam 171 milljónum í árslok 2024.
Gera má ráð fyrir að aukið birgðahald tengist viðbrögðum við lagabreytingu á seinni árshelmingi 2024 sem kvað á um að gjaldtaka á nikótínvörur sem fluttar eru hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi myndi hefjast 1. janúar 2025.
Gjaldið nemur á bilinu 8-20 krónur á hvert gramm vöru eftir styrk niktótíns. Þess má geta að gjald á nikótínvörur var lækkað í meðförum þingsins en upphaflega stóð til að leggja 30 króna gjald á hvert gramm af heildarþyngd varanna. Jafnframt var lagt á 40-60 króna gjald á hvern millilítra af vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar á rafrettum.
Svens lagðist hart gegn áformunum og varaði m.a. við að gjaldtakan myndi leiða til mikillar hækkunar á útsöluverði. Með breytingunni yrði verðmunurinn á dós af nikótínpúðum og pakka af sígarettum mun minni.
Stærstu hluthafar Svens eru Litli Gaston ehf., félag í eigu Kristjáns Ragnars Kristjánssonar, og Media Center ehf., félag Ragnars Orra Benediktssonar, sem eiga sitthvorn 40% hlut. Þá á OP ehf., félag í eigu Matthíasar Björnssonar, 20% hlut.