Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq minerals hefur hækkað um tæp 13% á fyrstu þremur viðskiptadögum ágústmánaðar.
Gengi félagsins hækkaði um 6% í 129 milljón króna viðskiptum í dag. Dagslokagengið var 115 krónur í dag.
Mögulega má rekja gengishækkunina til hækkunar á heimsmarkaðsverði á gulli en verðið á únsunni fór í 3.563 dali í dag og hefur aldrei verið hærri.
Hlutabréfaverð félagsins var þó komið 102 krónur á hlut fyrir helgi og hafði þá ekki verið lægra síðan í september í fyrra.
Amaroq reiknar með að framleiða um fimm þúsund únsur af gulli á þessu ári.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði um rúm 3% í tæplega 80 milljón króna viðskiptum í dag. Dagslokagengið var 78 krónur.
Gengi Sýnar hækkaði um 3% í 31 milljón króna viðskiptum en stjórnendur félagsins hafa verið að kaupa bréf á síðustu dögum. Dagslokagengi Sýnar var 27,8 krónur.
Valdís Arnórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Sýn, keypti hlutabréf í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu fyrir tæplega 2 milljónir króna á föstudaginn síðasta.
Þá stækkaði fjárfestingarfélagið InfoCapital, sem tveir stjórnarmenn Sýnar starfa sem framkvæmdastjórar hjá, hlut sinn í Sýn á fimmtudaginn.
Hlutabréfaverð fasteignafélagsins EIkar hækkaði um rúm 2% í 55 milljón króna veltu.
Gengi Play hélt áfram að lækka er hlutabréfaverð flugfélagsins fór niður um 6% í örviðskiptum. Dagslokagengi Play var 0,42 krónur á hlut.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,38% og var heildarvelta á markaði 1,7 milljarðar.