Hluta­bréfa­verð málm­leitarfélagsins Amaroq minerals hefur hækkað um tæp 13% á fyrstu þremur við­skipta­dögum ágúst­mánaðar.

Gengi félagsins hækkaði um 6% í 129 milljón króna við­skiptum í dag. Dagsloka­gengið var 115 krónur í dag.

Mögulega má rekja gengishækkunina til hækkunar á heims­markaðsverði á gulli en verðið á únsunni fór í 3.563 dali í dag og hefur aldrei verið hærri.

Hlutabréfaverð félagsins var þó komið 102 krónur á hlut fyrir helgi og hafði þá ekki verið lægra síðan í september í fyrra.

Amaroq reiknar með að fram­leiða um fimm þúsund únsur af gulli á þessu ári.

Hluta­bréfa­verð Síldar­vinnslunnar hækkaði um rúm 3% í tæp­lega 80 milljón króna við­skiptum í dag. Dagslokagengið var 78 krónur.

Gengi Sýnar hækkaði um 3% í 31 milljón króna við­skiptum en stjórn­endur félagsins hafa verið að kaupa bréf á síðustu dögum. Dagslokagengi Sýnar var 27,8 krónur.

Valdís Arnórs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri mann­auðs hjá Sýn, keypti hluta­bréf í fjölmiðla- og fjar­skipta­fyrir­tækinu fyrir tæp­lega 2 milljónir króna á föstu­daginn síðasta.

Þá stækkaði fjár­festingarfélagið Info­Capi­tal, sem tveir stjórnar­menn Sýnar starfa sem fram­kvæmda­stjórar hjá, hlut sinn í Sýn á fimmtu­daginn.

Hluta­bréfa­verð fast­eignafélagsins EIkar hækkaði um rúm 2% í 55 milljón króna veltu.

Gengi Play hélt áfram að lækka er hluta­bréfa­verð flug­félagsins fór niður um 6% í ör­við­skiptum. Dagsloka­gengi Play var 0,42 krónur á hlut.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,38% og var heildarvelta á markaði 1,7 milljarðar.