Valdís Arnórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Sýn, keypti hlutabréf í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu fyrir tæplega 2 milljónir króna á föstudaginn síðasta.
Valdís keypti 75 þúsund hluti á genginu 26,2 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Valdís Arnórsdóttir hóf störf sem mannauðstjóri Sýnar í byrjun janúar 2024. Hún kom til Sýnar frá Marel þar sem að hún starfaði í 11 ár, lengst af sem stjórnandi í alþjóðlegu mannauðsteymi Marels auk þess sem hún leiddi alþjóðlegt krísuteymi Marel. Þar áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri mannauðs hjá Heklu.
Þetta er þriðja tilkynningin um viðskipti stjórnenda Sýnar síðustu vikuna. Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, keypti hlutabréf í félaginu fyrir 10 milljónir króna á fimmtudaginn síðasta.
Þá stækkaði fjárfestingarfélagið InfoCapital, sem tveir stjórnarmenn Sýnar starfa sem framkvæmdastjórar hjá, hlut sinn í Sýn á fimmtudaginn.
Ofangreind viðskipti fylgja í kjölfar þess að Sýn birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung á þriðjudaginn í síðustu viku. Áfram er taprekstur hjá Sýn en Herdís sagði heildarniðustöðu á fyrri árshelmingi jákvæða en reksturinn sé í takt við áætlanir og kjarnatekjur sýni vöxt.
Þá tilkynnti Sýn í síðustu viku um samkomulag við Nova um helstu atriði fyrirhugaðra samninga um framsal farnetsdreifikerfa félaganna til Sendafélagsins sem er í sameiginlegri eigu félaganna.