Fjármálaráðuneytið áætlar að bein útgjöld ríkissjóðs vegna efnahagsáfalla og náttúruvár á síðatliðnum tíu árum nemi tæplega 338 milljörðum króna. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Njáls Trausta.
Njáll Trausti spurði um heildarútgjöld ríkissjóðs vegna gjaldþrots flugfélagsins Wow árið 2019, Covid-faraldursins, innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022, jarðhræringum í Grindavík frá árinu 2023 og loðnubresti og öðrum aflabresti.
Í svari fjármálaráðherra segir að á tímabilinu 2016–2025 hafi heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þeirra efnahagsáfalla og náttúruvár sem tilgreind eru í fyrirspurninni numið samtals 330,6 milljörðum króna.
Mestu áhrifin höfðu aðgerðir tengdar Covid-faraldrinum árin 2020 og 2021 en áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna faraldursins á því tímabili nam 194,4 milljörðum króna.
Jarðhræringar á Reykjanesskaga voru næststærsta einstaka áfallið að umfangi, þar sem heildarútgjöld námu 82,3 milljörðum króna. Þar af fóru 76,2 milljarðar í uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík árið 2024.
Aðrir atburðir sem höfðu veruleg áhrif á ríkisfjármálin voru náttúruhamfarir, þá óveður, snjóflóð og skriður, sem hafa leitt til 22,6 milljarða króna útgjaldaaukningar.
Stríðið í Úkraínu hefur leitt til útgjalda upp á 18,7 milljarða króna og gjaldþrot flugfélagsins Wow Air árið 2019 kostaði ríkissjóð um 16,6 milljarða króna. Útgjöld vegna loðnubrests og annars aflabrests var metinn á 3,3 milljarða króna.
Fjármálaráðherra tekur fram í svari sínu að framlagðar tölur gefi ekki heildarmynd af kostnaði vegna umræddra áfalla. Þær nái einungis til beinna útgjalda ríkissjóðs og taka ekki til óbeinna áhrifa á ríkisfjármál, svo sem tekjumissis, almenns varasjóðs, samdráttar í efnahagsstarfsemi eða kostnaðar sem kann að falla á sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga.