Eins og við vitum snúast stjórnmál á Íslandi líkt og annars staðar að mestu um að hafa vit fyrir fólki og blása upp hlutverk hins opinbera í daglegu lífi okkar allra. Leysa vandamál með miðstýrðum allsherjarlausnum, þar sem við þurfum öll að smeygja okkur í sömu Speedo-skýlu ríkisins á almannafæri, án tillits til vaxtarlags eða sundvilja.

Og ekki koma peningarnir til þess halda uppi spilaborg óskilvirkninnar úr vösum stjórnmálamannanna sjálfra, heldur er að sjálfsögðu seilst í vasa fólksins sem hefur fengið að njóta framúrskarandi einokunar hins opinbera á lífsnauðsynlegri þjónustu. Og þegar syrtir í álinn í stjórnlausum rekstrinum þarf að „sýna aðhald á tekjuhliðinni“, sem sagt taka meira af sjálfsaflafé fólks þannig að það vinni enn stærri hluta ársins fyrir óseðjandi skepnuna sem hið opinbera er.

Og nú býsnast stjórnmálamenn yfir þeirri ósvífni erlendra þjóða að leggja aukna tolla á vörur frá Íslandi. Eins og Kristmann Örn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri PFAFF, orðaði það í grein í Mbl. í vikunni:

„Sem formaður í Félagi raftækjasala átti ég mörg samtöl við fjöldann allan af alþingismönnum og ráðherrum úr öllum flokkum, sem næstum allir voru sammála um að þessir 150% tollar væru nauðsynlegir fyrir ríkissjóð og það væri alls ekki hægt að fella þá niður eða lækka þá.

Og nú mótmæla alþingismenn þessara sömu flokka harðlega þessum 15% tollum Bandaríkjamanna, og hafa sjálfsagt gleymt þeim 150% ofurtollum á innfluttar vörur til Íslands sem þeir sjálfir lögðu á vörur. Tíu prósent af því sem þessir sömu aðilar lögðu á innfluttar vörur til Íslands.

Væri ekki nær fyrir þessa alþingismenn að berjast fyrir lækkun ofurtolla sem Íslendingar leggja enn á innfluttar landbúnaðarvörur og lækka þar með matarverð á Íslandi. Ganga á undan með góðu fordæmi í stað þess að hneykslast þegar önnur lönd leggja á tolla – aðferð sem þeir þó sjálfir beita enn í dag.“