Framkvæmdastjóraskipti verða í næstu viku hjá Loftleiðum Icelandic en Guðni Hreinsson hefur sagt starfi sínu lausu hjá félaginu eftir fjórtán ára árangursríkt starf. Árni Hermannsson, fjármálastjóri félagsins, tekur við sem framkvæmdastjóri Loftleiða.  Guðni hefur starfað hjá Loftleiðum frá 2003 og sem framkvæmdastjóri félagsins frá 2006 og leitt uppbyggingu félagsins undanfarin ár. Hann mun áfram starfa við flugtengda starfsemi því hann hyggst taka að sér miðlun og ráðgjöf við flugfélög og leigusala á alþjóðlegum mörkuðum. Guðni mun verða Loftleiðum innan handar næstu mánuði.

Árni Hermannsson hefur verið fjármálastjóri Loftleiða frá 2002. Hann starfaði sem markaðstjóri Álits frá árinu 1999. Árið 2000 var hann ráðinn fjármálastjóri Álits og ári síðar fjármálastjóri ANZA sem varð til við sameiningu Álits, Miðheima, Nett og Veftorgs. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja fyrir hönd Icelandair Group á undanförnum árum. Árni útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999. Á árunum 1992-1995 lagði hann stund á hagverkfræði í Technische Hochshule í Darmstadt í Þýskalandi.

„Tíminn hjá Loftleiðum hefur verið í senn lærdómsríkur, skemmtilegur og spennandi. Félagið hefur vaxið mikið og hefur nú á að skipa 11 flugvélum sem sinna verkefnum  í 6 löndum í 5 heimsálfum. Hjá fyrirtækinu starfar frábært starfsfólk sem ég þakka kærlega fyrir gott samstarf undanfarin 14 ár auk þess sem ég þakka stjórn Loftleiða fyrir traust og gott samstarf. Ég óska félaginu alls hins besta og veit að það er í góðum höndum,“ er haft eftir Guðna Hreinssyni, fráfarandi framkvæmdastjóri í tilkynningu.

Þá þakkar Björgólfur Jóhannsson , forstjóri Icelandair, Guðna fyrir gott starf í þágu félagsins. „Við þökkum Guðna kærlega fyrir framúrskarandi starf í þágu félagsins. Hann á stóran þátt í velgengni Loftleiða undanfarin ár og hann og samstarfsfólk hans hafa byggt upp öflugt fyrirtæki sem starfar í mjög krefjandi samkeppnisumhverfi. Starfsemi Loftleiða er mjög sérhæfð og Árni Hermannsson, sem tekur nú við sem framkvæmdastjóri, þekkir reksturinn vel. Við væntum sem fyrr mikils af honum og samstarfsfólki  hans hjá Loftleiðum.“