Rúna Guðrún Loftsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður framlínuþjónustu OK en Rúna hefur starfað innan upplýsingatækninnar í tvo áratugi og komið þar að fjölbreyttum verkefnum.

Hún hefur starfað sjálfstætt hjá fyrirtæki sínu, Decasoft og sinnt verkefnum við innleiðingar ITIL ferla og verklags, unnið að þjónustuhönnun, verkefnastjórnun við innleiðingar á kerfum og lausnum, ásamt Microsoft 365 ráðgjöf og fræðslu.

Einnig starfar Rúna hjá Opna Háskólanum í Reykjavík við fræðslu í Microsoftlausnum, ásamt því að kenna þar upplýsingatækni í verkefnastjórnunarnámi APME.

Rúna starfaði áður hjá KPMG, Alvogen/Alvotech, Össur hf., Advania og Upplýsingatæknisviði Reykjavíkurborgar. Rúna er með IPMA vottun í verkefnastjórn, ITIL4 vottun í ferlum og verklagi í upplýsingatækni og Microsoft kerfisstjórn.

„Það er mikill styrkur fyrir okkur hjá OK að fá reynsluboltann hana Rúnu inn í hópinn okkar. Hún býr yfir viðamikilli reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi í upplýsingatækni. Með Rúnu kemur mikill metnaður, gleði og eldmóður sem rímar vel við menninguna hjá OK,“ segir Halldór Áskell, framkvæmdastjóri skýja og rekstrarlausna.