Davíð Tómas Tómasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Moodup en hann tekur við starfinu af Birni Brynjúlfi sem var framkvæmdastjóri frá árinu 2021.

Moodup er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað árið 2021 og mælir starfsánægju fyrir vinnustaði með stuttum könnunum sem sendar eru út reglulega til starfsfólks.

Davíð hefur verið sölu- og fræðslustjóri Moodup síðastliðin þrjú ár. Auk þess er hann alþjóðlegur körfuboltadómari en Davíð starfaði áður sem Bootcamp-þjálfari í Sporthúsinu og hefur einnig starfað sem fyrirlesari um andlegt heilbrigði.

„Ég er fullur tilhlökkunar að taka við rekstri félagsins. Ég hef tekið þátt í uppbyggingu fyrirtækisins allt frá stofnun þess og þekki hvern krók og kima vel. Mannauðsmál á Íslandi hafa verið í mikilli sókn síðustu ár og stjórnendur eru sífellt betur meðvitaðir um mikilvægi þess að starfsfólki líði vel,“ segir Davíð.