*

laugardagur, 25. nóvember 2017
Innlent 5. september 2012 17:18

Gamli Landsbankinn átti kröfu á Magnús Kristinsson

Nýi Landsbankinn hefur leitað eftir því að slitastjórn gamla Landsbankans breyti nafni bankans. Þær umleitanir hafa engu skilað.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Forsvarsmenn Landsbankans segja misskilnings hafa gætt um sölu Magnúsar Kristinssonar og fjölskyldu hans á útgerðarfyrirtækinu Bergi-Huginn í Vestmannaeyjum. Bankinn segist engan hlut hafa átt í útgerðinni heldur gamli bankinn sem slitastjórn stýri. 

Leitað hefur verið eftir því að gamli Landsbankinn skipti um nafn til að forðast frekari misskilning og óskað liðsinnis Fjármálaeftirlitsins í málinu. Ekki hefur tekist að fá því framfylgt, segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

Tilkynning Landsbankans er eftirfarandi:

„Vegna misskilnings sem  skapast hefur við sölu á hlutafé í útgerðarfélaginu Bergi – Huginn ehf. í Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar hf. vill Landsbankinn koma eftirfarandi á framfæri. Algengt er að Landsbankanum hf. og Landsbanka Íslands hf. sem nú er í slitameðferð hafi verið ruglað saman af hálfu þeirra sem fjallað hafa um málið. Landsbankinn hf. sem stofnaður var í október 2008 átti ekkert hlutafé í Bergi – Huginn ehf. Stór hluti þess var hins vegar í eigu Landsbanka Íslands hf. Landsbankinn hf. ræður því engu um örlög félagsins. Landsbankinn hf. hefur oftsinnis á síðustu árum óskað eftir því að Landsbanki Íslands hf. breytti nafni sínu opinberlega, þannig að forðast mætti hvimleiðan misskilning eins og þennan og m.a. óskað liðsinnis FME í því máli. Ekki hefur tekist að fá því framfylgt.