Skattabreytingar ríkisstjórnarinnar og afnám vörugjalda þýða að tekjur sveitarfélaga dragast saman um 57 milljónir króna. Ástæðan er að útsvar sveitarfélaganna er hlutfall af skatttekjum ríkisins og skatttekjur ríkisins dragast saman um 2,7 milljarða vegna breytinganna. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Í svari ráðherrans kemur einnig fram að sú ákvörðun að stytta hámarks greiðslutímabil atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 hafi áhrif á fjárhag sveitarfélaganna. Er það vegna þess að hluti þeirra sem falla af atvinnuleysisbótum mun sækja um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum. Í svarinu kemur fram að lauslega megi áætla að 40 til 60% þeirra sem falli af bótum muni sækja um aðstoð hjá sveitarfélögunum.

„Gróflega áætlað má því gera ráð fyrir að þessi aðgerð geti leitt til nokkurra hundruð milljóna króna viðbótarútgjalda fyrir sveitarfélögin,“ segir í svarinu.