Orri Heiðarsson var á dögunum ráðinn til starfa í hlutabréfamiðlun Íslandsbanka en hann kemur til Íslandsbanka frá Fossum fjárfestingarbanka, þar sem hann starfaði einnig sem hlutabréfamiðlari.
„Nýja starfið leggst mjög vel í mig, ég tel að Íslandsbanki sé á besta stað á íslenskum fjármálamarkaði enda eru augljóslega mikil tækifæri eftir að ríkið seldi eignarhlut sinn. Það er spennandi að vinna aftur hjá svona stóru fyrirtæki eftir að hafa unnið hjá minna batteríi síðustu ár,“ segir Orri.
„Áður en ég skipti yfir til Fossa þá vann hjá Kviku sem skuldabréfamiðlari sem var líka mjög verðmæt reynsla farandi inn í hlutabréfin til að skilja betur kjör lána/útgáfa skráðra félaga og hvaða áhrif þær hafa á rekstrarreikning félagana sem og hvernig stemningin almennt er fyrir félögum á markaði.“
Orri er rafmagns- og tölvuverkfræðingur að mennt en lokaverkefni hans var að búa til hlutabréfaspálíkan með hjálp gervigreindar. Að hans sögn nýtist stærðfræði og forritunar bakgrunnur hans, með áherslu á gervigreind, vel til daglegra starfa.
„Ég kláraði verkfræðina árinu áður en Chat GPT var kynnt til sögunnar og eflaust hefði það tól sparað mér hellings tíma sem fór í að gúgla allskonar tengt náminu. En ég nýti mér Chat GPT og fleiri tól mikið í vinnunni enda einfalda þau lífið mjög mikið,“ segir Orri.
Nánar er rætt við Orra í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.