Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kviku Securities, hefur tekið sæti í stjórn Sóltúns heilbrigðisþjónustu.
Gunnar starfaði sem framkvæmdastjóri Kviku Securities í London, dótturfélags Kviku banka fram til ársins 2023 en hann leiddi uppbyggingu breskrar starfsemi Kviku frá stofnun árið 2017. Þá starfaði hann áður sem framkvæmdastjóri og síðar forstjóri hjá Baugi Group hf.
Gunnar hefur meðal annars setið í stjórn Cornerstone Healthcare Group Ltd. og tengdra félaga, sem sérhæfa sig í hjúkrunarheimilum fyrir einstaklinga með flóknar taugasjúkdóma- og geðheilbrigðisáskoranir.
„Við erum afar spennt að fá Gunnar til liðs við okkur í stjórn Sóltúns. Hann býr yfir dýrmætri reynslu af sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og þekkingu á fjölbreyttum fyrirtækjarekstri. Þessi reynsla mun nýtast okkur vel í áframhaldandi þróun og vexti Sóltúns,“ segir Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns.
Sóltún heilbrigðisþjónusta rekur hjúkrunarheimilin Sóltún í Reykjavík og Sólvang í Hafnarfirði. Unnið er að því að stækka hjúkrunarheimilið Sóltún með fjölgun hjúkrunarrýma úr 92 í 159. Á Sólvangi er 71 einstaklingsíbúð.