„Ég þrífst í starfi þar sem ég þarf að setja mig í mismunandi hlutverk og takast á við fjölbreyttar áskoranir. Fólkið í Ölgerðinni er frábært og ótrúlegur kraftur sem fylgir því þegar öll eru að vinna í sömu átt,“ segir Vaka Njálsdóttir en hún hefur nú tekið við sem vörumerkjastjóri Collab.

Hún starfaði áður hjá Nova í markaðsdeild og vöruþróun og þar áður starfaði hún hjá Sony Music, þar sem hún sinnti ráðgjöf við útgáfu og markaðssetningu á tónlist. Sú reynsla telur Vaka að muni nýtast vel á nýjum stað.

„Hins vegar er umhverfið mjög ólíkt og þær vörur sem ég er að vinna með hafa allt aðra möguleika. Það er nóg að læra og skoða fyrstu daganna,“ segir hún.

Collab kom fyrst á markað fyrir sex árum og hefur verið í mikilli sókn, meðal annars á erlendum mörkuðum. Vaka segir það mikinn heiður að taka við vörumerki sem er partur af deginum hjá fjölmörgum Íslendingum.

„Collab hefur sína mögnuðu sérstöðu, búið til úr hreinu íslensku vatni,inniheldur kollagen sem er unnið úr íslensku sjávarfangi og er skapað með íslenska náttúru í huga. Það er gaman að vinna með öllum þeim sem hafa tekið þátt í ferlinu frá upphafi, því það er ótrúleg vinna að baki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.