Þórir Sigurgeirsson hefur ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Tengis en verður þó áfram starfandi sem stjórnarformaður frá og með 1. september þegar nýtt skipurit tekur gildi.
Arnar Árnason tekur við starfi framkvæmdastjóra en hann hefur verið sölu- og markaðsstjóri undanfarin átta ár. Hann þekkir vel til fyrirtækisins og hefur sterk tengsl við starfsfólkið, viðskiptavinina, birgjana og markaðinn.
Þórir hefur verið framkvæmdastjóri Tengis undanfarin 30 ár en í tilkynningu segir að sem starfandi stjórnarformaður muni Þórir leggja sitt af mörkum við að viðhalda góðum tengslum við starfsmenn, stærri birgja og viðskiptavini.
„Hvatinn að þessari ákvörðun er að mér finnst núna góður tími til að stíga aðeins til hliðar og gefa öðrum tækifæri og traust til að drífa fyrirtækið áfram, það er nauðsynlegt að tryggja að Tengi nái áfram að vaxa og dafna í komandi framtíð með öflugum leiðtogum“ segir Þórir.
Svanþór Laxdal er fjármálastjóri og verður jafnframt aðstoðarframkvæmdastjóri og staðgengill framkvæmdastjóra. Hann hefur unnið hjá Tengi í sjö ár og hefur mikla þekkingu á rekstri og upplýsingatækni fyrirtækisins.
Kristmann Kristmannsson er innkaupastjóri og stýrir innkaupa- og birgðasviðinu. Auk þess sér hann um sérverkefni í sölu og vöruþróun og mun móta framtíðarsýn Tengis í þeim málum. Hann hefur unnið hjá Tengi í 27 ár og hefur verið einn af máttarstólpum þess frá upphafi.
Andri Lindberg Karvelsson tekur við stöðu sölustjóra en hann hefur unnið hjá Tengi í 10 ár og hefur leitt sérlausnasvið Tengis ásamt því að hafa yfirgripsmikla vöruþekkingu.
„Tengi er byggt á sterkum grunni og það er mér mikill heiður að fá að leiða fyrirtækið áfram til frekari sóknar inn í framtíðina. Sterkur hópur öflugs starfsfólks er þar lykillinn og það eru spennandi tímar framundan,“ segir Arnar Árnason, verðandi framkvæmdastjóri Tengis.