Klak – Icelandic Startups hefur ráðið til sín tvo verkefnastjóra, þau Harald Bergvinsson og Önnu Schalk Sóleyjardóttur, samkvæmt fréttatilkynningu.

Haraldur Bergvinsson hefur nýlokið meistaranámi í nýsköpun og viðskiptaþróun frá Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfaði hann í fimm ár hjá Landsbankanum.

Haraldur mun í haust leiða nýjan hraðal Klaks á sviði heilsutækni – KLAK-health – sem hefur það að markmiði að styðja við og efla nýsköpun í heilbrigðistækni og tengdum greinum.

Anna Schalk Sóleyjardóttir útskrifaðist úr námi í Creative Business frá Hogeschool Utrecht í Hollandi, auk þess sem hún lauk aukagrein í samfélagslegri frumkvöðlastarfsemi (Social Entrepreneurship) frá Háskólanum í Amsterdam.

Anna hefur nú tekið við sem verkefnastjóri Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands, sem verður haldin í nítjánda sinn í lok febrúar 2026.