GEMMAQ kynjakvarðinn, sem veitir upplýsingar um kynjahlutföll í leiðtogastörfum fyrirtækja á íslenskum markaði, skráð og óskráð, eins og staðan er hverju sinni, varpar ljósi á kynjahalla meðal stjórnenda fyrirtækja.
Meðal skráðra félaga eru konur tæplega 33,5% framkvæmdastjóra en einungis um 14% forstjóra eru konur. Hvað stjórnir varðar eru konur tæplega 43% stjórnarmeðlima en einungis tæplega 11% stjórnarformanna eru konur.
Aðalmarkaðurinn í heild fær 7,14 í einkunn og hefur lækkað lítillega það sem af er ári samkvæmt GemmaQ kvarðanum en einkunnir eru gefnar á skalanum 0-10, þar sem 10 er hæsta einkunnin, miðað við hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn og stjórn félagsins. Hefur einkunnin lítið breyst á undanförnum árum en einkunnin var til að mynda 6,97% árið 2012.
Á fyrri hluta ársins 2025 hefur GemmaQ greint frá ýmsum skipulagsbreytingum meðal skráðra fyrirtækja á Íslandi, sem hafa haft áhrif á kynjahlutföll í stjórnum og framkvæmdastjórnum – og þar með á GemmaQ einkunnir þeirra.
Einkunnir nokkra félaga lækka en Sýn fer t.a.m. úr 8,5 í 8,0, þar sem fjölgun framkvæmdastjóra án aukins hlutfalls kvenna veldur lækkun. Amaroq Minerals fer þá úr 6,0 í 5,0 vegna fækkunar í stjórn félagsins.
Á móti kemur að nokkur félög hækka. Nova fer t.a.m. úr 9,5 í 10,0 en félagið er bæði með konu sem stjórnarformann og forstjóra og hefur hlutfall kvenna í stjórn aukist úr 40% í 60%. Skagi hækkar þá úr 7,5 í 8,0 þar sem konum hefur fjölgað í framkvæmdastjórn.
Í dag eru konur aðeins forstjórar 4 félaga af 28 sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallarinnar. Fjarskiptafyrirtækin þrjú - Nova, Síminn og Sýn - og Festi eru með kvenkyns forstjóra.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.