Útlit er fyrir að hagnaðarhlutfall í viðskiptahagkerfinu hafi dregist saman þriðja árið í röð miðað við niðurstöður úttektar Viðskiptablaðsins á rekstrarniðurstöðum stærstu fyrirtækja landsins sem hafa birt ársreikning fyrir árið 2024.

Úttektin nær til 177 af 300 stærstu fyrirtækjum landsins eftir veltu – lista sem nálgast má í 500 stærstu, riti Frjálsrar verslunar, sem kom út í desember síðastliðnum. Vegið hagnaðarhlutfall umræddra fyrirtækja var 6,6% á árinu 2024 samanborið við 7,3% árið 2023.

Hagnaðarhlutfall í viðskiptahagkerfinu að undanskilinni fjármála- og vátryggingastarfsemi, samkvæmt tölum Hagstofunnar sem byggja á skattframtölum rekstraraðila, hefur þróast með áþekkum hætti. Tíu ára meðaltal hagnaðarhlutfallsins í viðskiptahagkerfinu er um 8,5%. Hagstofan hefur ekki birt umræddar tölur fyrir árið 2024.

Sé farið eftir sömu aðferðafræði og Hagstofan, þ.e. að undanskilja fjármála- og vátryggingastarfsemi, þá lækkar vegið hagnaðarhlutfall í úttekt Viðskiptablaðsins úr 6,6% í 5,0% á árinu 2024 og úr 7,3% í 5,9% fyrir árið 2023. Þá litar afkoma fasteignafélaga aðeins samanburð milli ára í ljósi þess að matsbreyting fjárfestingareigna var umtalsvert meiri á árinu 2024 heldur en árið áður. Sé sleppt bæði fjármála- og fasteignafélögum – fyrirtækjum með umfangsmikla efnahagsreikninga – þá var hagnaðarhlutfallið að jafnaði 4,2% á árinu 2024 og 5,5% árið 2023.

Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu, án fjármála- og vátryggingastarfsemi, námu 6.835 milljörðum króna árið 2023 samkvæmt bráðabirgðamati Hagstofunnar á skattframtölum rekstraraðila og jukust um 6,7% frá fyrra ári.

Sé stuðst við veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum nam vöxturinn 3,0% árið 2024 og 8,2% árið 2023. Velta á árinu 2024 jókst mest í veitustarfsemi, málmframleiðslu og fasteignastarfsemi. Samdráttur var aftur á móti í bílasölu, upplýsingatækni og fjarskiptum, byggingarstarfsemi, heildverslun og sjávarútvegi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.