Útlit er fyrir að hagnaðarhlutfall í viðskiptahagkerfinu hafi dregist saman þriðja árið í röð miðað við niðurstöður úttektar Viðskiptablaðsins á rekstrarniðurstöðum stærstu fyrirtækja landsins sem hafa birt ársreikning fyrir árið 2024.
Verðbólga jókst umtalsvert á alþjóðavísu á árunum 2021 og 2022 í kjölfar lágvaxtartímabils í Covid-faraldrinum. Á Íslandi fór verðbólgan hæst í 10,2% í febrúar 2022 en er komin aftur niður í 4,0%.
Á þessum tíma bar á góma svokölluð „græðgisverðbólga“ (e. greedflation). Þannig var gefið til kynna að græðgi fyrirtækja eða hagnaður þeirra hafi verið meginorsakavaldur þessarar miklu verðbólgu, fremur en rof á aðfangakeðjum vegna heimsfaraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu.
Minna hefur verið rætt um græðgisverðbólgu hér á landi upp á síðkastið, sennilega í ljósi hjöðnunar verðbólgunnar. Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, stærsta stéttafélags landsins, hefur þó gert tilraun upp á síðkastið til að draga „gróðadrifna verðbólgu“ aftur í umræðuna.
Í útvarpsþættinum Sprengisandi í lok júní sagði hún aukna verðbólgu í júnímánuði, þegar verðbólgan fór úr 3,8% í 4,2%, vera heimatilbúin vanda sem ætti að mestu leyti rætur að rekja til „gróðasóknar fyrirtækja“. Að mati formanns VR eru fyrirtæki ófær um að halda aftur af sér.
Aukið taumhald vinni gegn þróuninni
Seðlabankinn tók hina meintu græðgisverðbólgu fyrir í riti Peningamála sem kom út í nóvember 2023. Seðlabankinn sagði greiningu á framlagi álagningar til verðbólgu benda til þess að breytingar á álagningu fyrirtækja hafi átt lítinn þátt í þróun verðbólgu á árunum 2020-2022. Líkan bankans gaf til kynna að álagning innlendra fyrirtækja hafi vegið á móti aukningu verðbólgu árið 2021 en framlagið mældist lítið jákvætt á árunum 2020 og 2022. Seðlabankinn sagði að fremur mætti rekja verðbólguskotið til mikillar umframeftirspurnar í þjóðarbúinu.
Í slíku umhverfi sé meiri hætta á að fyrirtæki verndi álagningarhlutföll sín og fleyti kostnaðarhækkunum út í verðlag og að launafólk reyni að endurheimta fyrra launahlutfall. Aukið taumhald peningastefnunnar vinni gegn þessari þróun með því að draga úr eftirspurn sem geri fyrirtækjum erfiðara um vik að fleyta kostnaði út í verðlag og neyðir þau til að taka á sig kostnaðarhækkanir í gegnum minni álagningu. Um leið léttir minni eftirspurn á launaþrýstingi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.