Hugmyndir um olíuleit í lögsögu Íslands falla misvel í landsmenn ef marka má könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Þar voru þátttakendur spurðir: Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að hefja á ný olíuleit í íslenskri lögsögu?
Í könnun Gallup voru svör þátttakenda meðal annars flokkuð eftir spurningunni: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndirðu kjósa/líklegast kjósa? Viðskiptablaðið ræddi við formenn stjórnarandstöðuflokkanna í byrjun apríl sl. og kannaði afstöðu þeirra til olíuleitar.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði flokkinn fylgjandi því að möguleikar á olíuleit í lögsögu Íslands yrðu skoðaðir með opnum og jákvæðum huga, að því gefnu að mat á þjóðhagslegum ávinningi, arðsemi og öðrum mikilvægum þáttum styddi slíka ákvörðun.
Í könnun Gallup voru 72% þeirra sem sögðust myndu kjósa eða líklega kjósa Sjálfstæðisflokkinn fylgjandi því að hefja olíuleit á ný, þar af voru 36% mjög fylgjandi. Aðeins um 6% sögðust andvíg, þar af 3% mjög andvíg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði flokkinn hlynntan skynsamlegri nýtingu auðlinda landsins og það ætti sannarlega við um olíu og gas fyndist það í vinnanlegu magni. Þá hefði flokkurinn barist gegn hugmyndum síðustu ríkisstjórnar um að banna olíuleit. Leit að olíu og gasi myndi strax hafa mikil og jákvæð áhrif fyrir landið, sérstaklega Norður- og Austurland þar sem þörf væri á aukinni uppbyggingu og mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
Alls voru 64% kjósenda Miðflokksins fylgjandi olíuleit, þar af 37% mjög fylgjandi. 14% þátttakenda sögðust andvíg, þar af 4% mjög andvíg.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði flokkurinn leggja ríka áherslu á orkuskipti og líta svo á að það ætti að vera forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda að hraða þeirri vegferð. Flokkurinn teldi að ekki ætti að útiloka að teknar yrðu ákvarðanir um olíuleit í framtíðinni – ef aðstæður kölluðu á það og það þjónaði þjóðarhagsmunum. Ákvörðun um slíkt þyrfti þó að taka á grunni víðtækrar greiningar og í ljósi umhverfislegra, efnahagslegra og alþjóðlegra sjónarmiða.
Hvað kjósendur Framsóknarflokksins varðar voru 67% fylgjandi olíuleit, þar af 24% mjög fylgjandi. Alls voru 18% andvíg, þar af 4% mjög andvíg.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.