Innviðaráðherra hefur boðað frumvarp þar sem lagt er til að undanþága orkumannvirkja frá fasteignamati verði felld niður. Hingað til hafa orkufyrirtækin aðeins þurft að greiða fasteignaskatt af hluta sinna eigna. Samkvæmt áformunum myndi fasteignamat rafveitna hækka úr 82 milljörðum króna í 1.358 milljarða króna og er þar miðað við gangvirðismat.

Eins og staðan er í dag greiða orkufyrirtæki allt að 1,65% af fasteignamati virkjanamannvirkja, eins og með aðrar atvinnueignir, í fasteignaskatt en nú er gert ráð fyrir að nýtt skattþrep verði tekið upp. Í skýrslu verkefnahóps sem samanstóð af sérfræðingum KPMG, COWI og Gnaris og sett var fram í samstarfi við sérfræðinga HMS er miðað við að nýtt álagningarhlutfall yrði 0,25% en tekið er fram að endanlegt álagningarhlutfall yrði ákvarðað í lögum.

Í dag fá tíu sveitarfélög einna helst fasteignaskattstekjur vegna virkjana, þar af fá þrjú sveitarfélög meira en helming allra tekna, samkvæmt greiningu KPMG. Ásahreppur fær þannig 303,5 milljónir í núverandi kerfi, Skeiða- og Gnúpverjahreppur fær 257 milljónir og Fljótsdalshreppur fær 171,8 milljónir.

Í nýju kerfi, miðað við 0,25% álagningarhlutfall, myndu tekjur ákveðinna sveitarfélaga aftur á móti margfaldast. Fljótsdalshreppur, sem taldi í byrjun árs aðeins 90 íbúa, myndi fá 4,5 sinnum meira eða 782,5 milljónir króna, sem samsvarar um 8,7 milljónum á hvern íbúa. Skrifast það að mestu leyti á að ýmis mannvirki Kárahnjúkavirkjunar eru staðsett í sveitarfélaginu.

Ásahreppur, sem er aðeins með 299 íbúa, fengi þá 736,2 milljónir króna eða um 2,5 milljónir á hvern íbúa. Tekjur Múlaþings aukast þó hlutfallslega mest en sveitarfélagið, sem fær aðeins tæplega 30 milljónir undir núverandi kerfi, fengi um 413 milljónir króna í fasteignaskattstekjur. Þingeyjarsveit er eina sveitarfélagið sem fengi minni tekjur í nýju kerfi en það fær í dag.

Í áformaskjali ráðherra er lagt til að þriðji aðili sjái um að innheimta fasteignaskatt rafveitna í stað sveitarfélaganna sjálfra og dreifi síðan skattinum til sveitarfélaga og til Jöfnunarsjóðs eftir atvikum, þar sem tekjur á hvern íbúa fara umfram ákveðið hámark.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.