Metal ehf. hagnaðist um 117,7 milljónir króna á rekstrarárinu 2021, sem er 100 milljóna króna aukning frá árinu áður. Sölutekjur félagsins námu tæpum 1,5 milljörðum króna og voru 56% meiri en árið 2020. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri félagsins.
Metal var stofnað árið 2004, en aðalstarfsemi félagsins er heildverslun með unna, óunna málma og málmgrýti auk utanhúsklæðninga. Í skýrslu stjórnar segir að félagið hafi hagnast á hækkun málmverðs á árinu. Auk þess hafi styrking krónunnar á árinu gagnvart dönsku krónunni, helstu viðskiptamynt félagsins, skilað félaginu gengishagnaði sem er viðsnúningur frá fyrra ári.
Eigið fé félagsins var jákvætt um 119 milljónir í lok árs og leggur stjórn félagsins til að greiða út 70 milljónir króna í arð til hluthafa á árinu 2022. Pétur Smári Richardsson er framkvæmdastjóri félagsins og er 50% hluthafi á móti Karli Gunnari Eggertssyni.