Uppbygging laxeldisfyrirtækisins First Water, sem er með starfsemi í við Þorlákshöfn, hefur haldið áfram af miklum krafti það sem af er ári. Þetta kemur fram í bréfi sem Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sendi hluthöfum félagins.
Eignarhlutur Stoða í laxeldisfyrirtækinu First Water er metinn á 14,1 milljarð króna sem samsvarar 39,9 milljarða króna hlutafjárvirði félagsins. Verðmæti eignarhlutar Stoða í First Water var endurmetið á 1. ársfjórðungi í kjölfar hlutafjáraukningar félagsins en Stoðir juku einnig við fjárfestingu sína í félaginu í aukningunni. Eignarhluturinn í First Water nemur 26,1% af eigin fé Stoða.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jón segir að á fyrri hluta ársins hafi verið fjárfest fyrir um 60 milljónir evra og heildarfjárfesting því orðin rúmlega 180 milljónir evra eða ríflega 25 milljarðar króna.
„Mikilvægum áfanga var náð nú í júlí þegar fyrstu 25 metra ker félagsins voru tekin í notkun en þau eru forsenda þess að laxinn geti vaxið í um 5 kg sláturstærð sem hámarkar arðsemi framleiðslunnar," segir Jón. „Er félagið nú með yfir þúsund tonn af laxi í kerum og heildarslátrun hefur nú náð rúmlega tvö þúsund tonnum frá upphafi."
„Vel hefur tekist til við eldi á laxinum enda gæði vatns og sjávar á svæðinu eins góð og hugsast getur. Hefur þetta bein áhrif á heilbrigðan vöxt laxins sem leiðir af sér gott bragð og góða áferð en viðbrögð hafa verið mjög jákvæð við þeirri vöru sem framleidd er. Nú fer að reyna enn frekar á sölustarfsemi félagsins þar sem afköst fara að aukast hratt inn í haustið og næsta ár. Einnig er ánægjulegt að segja frá því að sá sjór sem rennur úr kerunum aftur út í sjó er hreinsaður og reynist í raun hreinni en sjórinn sem hann rennur út í."
Jón segir uppbyggingu First Water mjög fjárfrekt verkefni og því mikilvægt fyrir fyrirtækið að hafa sterka bakhjarla, bæði hluthafa og lánveitendur.
„Það verður spennandi að kynna þá áfanga sem náðst hafa í starfseminni fyrir mögulegum nýjum fjárfestum á haustmánuðum en sú töf sem varð á framkvæmdum hjá félaginu hafði áhrif á samtal við fjölda innlenda og erlenda aðila síðasta vetur."
Jón segir að á aðalfundi First Water í vor hafi ný stjórn verið kosin, þar sem inn hafi komið öflugir aðilar sem muni styðja enn frekar við verkefnið.
„Orri Hauksson, fyrrum forstjóri Símans, var kosinn stjórnarformaður og teljum við það mikilvægt fyrir félagið að fá hans liðsinni við þau verkefni sem framundan eru.
Verkefnin næstu misserin eru líkt og áður framkvæmdir, eldi og fjármögnun. Það er von okkar að á haustmánuðum munum við sjá fyrstu kynslóð 5 kg fiska sem verður mjög mikilvægur áfangi í sögu félagsins. Fjármögnun félagsins innanlands og erlendis mun halda áfram enda framkvæmdir í fullum gangi við að klára fyrsta fasa þessa gríðarstóra verkefnis."