Arctic Hydro, félag sem sérhæfir sig í þróun virkjanakosta á Íslandi fyrir raforkuframleiðslu, tapaði 453 milljónum króna í fyrra en árið áður nam tap félagsins 289 milljónum. Tekjur námu 392 milljónum og jukust um 175 milljónir milli ára. Rekstrartap nam 13,4 milljónum króna, samanborið við 17 milljóna rekstrarhagnað 2023.
Samkvæmt Orkustofnun er Arctic Hydro með virkjunarleyfi fyrir Hólsvirkjun í Fnjóskadal og undir lok síðasta árs fékk félagið rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjanir í Þorvaldsdalsá og Gilsá. Félagið á einnig eignarhluti í ýmsum félögum sem halda utan um virkjunarframkvæmdir, t.d. Hamarsvirkjun og Geitdalsárvirkjun, auk þess sem félagið keypti 100% hlut í AB - Fasteignum í fyrra.
Bókfært eigið fé nam 835 milljónum króna um síðustu áramót en nam 1,3 milljörðum í lok árs 2023. Skuldir námu 8,5 milljörðum króna og jukust um 6,4 milljarða milli ára.
Qair Iceland, sem er í eigu Qair International, fer með 91,3% hlut í Arctic Hydro og Yard ehf., sem er í eigu Skírnis Sigurbjörnssonar og Benedetto Vals Nardini fer með 8,7% hlut. Skírnir er jafnframt framkvæmdastjóri Arctic Hydro.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.