Björn Bjarnason, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, segir tvíhliða varnar- og öryggissamning milli Íslands og ESB vera tómt rugl.
Á fundi Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra með Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, var ákveðið að hefja viðræður um tvíhliða varnar- og öryggismál milli Íslands og ESB.
Ísland er nú þegar í Atlantshafsbandalaginu (NATO) ásamt því að vera með varnarsamning við Bandaríkin.
„Tvíhliða varnarsamningur? Hvaða rugl er þetta? Ábreiða yfir eitthvað allt annað. ESB ræður ekki yfir neinum her og hefur því síður nokkur ítök á N-Atlantshafi,” skrifar Björn Bjarnason á Facebook.
Stjórnarráðið greindi frá því að fyrirhuguð samstarfsyfirlýsing væri mikilvæg „í ljósi núverandi stöðu heimsmála, sem og vegna þeirrar hröðu þróunar sem orðið hefur á öryggis- og varnarstefnu ESB undanfarna mánuði.“
Ísland hefur þó aðra kosti en Evrópusambandið í þessum efnum óttist ríkisstjórnin um „núverandi stöðu heimsmála“ og öryggis- og varnamál Íslands.
Ísland er nú þegar hluti af NATO en gæti lagt aukna áherslu á samstarf við Joint Expeditionary Force (JEF), sem Bretland leiðir, með þátttöku allra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Hollands.
Ísland er einnig í varnarsamstarfi Norðurlandanna (NORDEFCO) sem hefur fengið aukið vægi með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO.
Ísland á þegar langt samstarf við lönd JEF og NORDEFCO, sérstaklega Noreg og Bretland.
Samtökin eru einnig hnitmiðaðri í öryggis- og varnarmálum sem tengjast Íslandi ólíkt ESB, sem er margþætt bandalag með flókna ákvarðanatöku.