Eftir af­komu fyrsta árs­fjórðungs 2025 hefur Jakobs­son Capi­tal endur­metið virði fisk­eldis­félagsins Kald­víkur og lækkar það nú fyrra verðmat félagsins um 18,5 pró­sent.

Nýtt verðmat hljóðar upp á 335 milljónir evra, sem jafn­gildir um 47,6 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins, en fyrra mat frá því í lok ársins 2024 var 399 milljónir evra.

Lækkunin byggir fyrst og fremst á endur­skoðaðri rekstraráætlun sem tekur mið af veru­legum af­föllum á fyrsta fjórðungi, auk hærri auðlinda­gjalda og minni rekstrar­hagnaðar en áður var gert ráð fyrir.

Rekstrar­hagnaður félagsins fyrir virðis­breytingar og auðlinda­gjald nam 9,8 milljónum evra á fyrsta árs­fjórðungi 2025, saman­borið við 2,4 milljónir evra á sama tíma árið áður.

Þrátt fyrir aukið fram­leiðslu­magn og mikla stærðar­hag­kvæmni, sem skilaði 20,3% EBIT-hagnaðar­hlut­falli (án virðis­breytinga), leiddu miklar niðurfærslur á líf­massa til þess að af­koman eftir virðis­breytingar varð neikvæð um 2,4 milljónir evra.

Til saman­burðar var sú tala jákvæð um 0,5 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

Fram­leiðsla félagsins nam 6.400 tonnum á fyrsta árs­fjórðungi, eða um 30% af heildar­fram­leiðsluársáætlun sem nú hljóðar upp á 21.500 tonn.

Slátrun varð meiri en áætlað hafði verið vegna óvenju­kalds sjávar og til­heyrandi vetrar­sára. Aðeins 62% fram­leiðslunnar flokkaðist sem úr­vals­lax, en meðal­verð á kíló nam engu að síður 7,44 evrum, sem er tæp­lega einni evru lægra en á sama tíma í fyrra.

Úr verðmati Jakobsson Capital.
Úr verðmati Jakobsson Capital.

Þrátt fyrir lakari gæði sýnir af­koman að reksturinn nýtur góðs af skölunaráhrifum og hag­kvæmari fram­leiðslu.

Framtíðar­vöxtur skýrir háa verðlagningu

Þrátt fyrir lægra verðmat dregur skýr vöxtur félagsins ekki úr trú greiningaraðila á framtíðar­verðmæta­sköpun þess.

Kald­vík fjár­festi á árinu í 7,5 milljónum seiða sem verða sett í sjó á þessu ári og styður sú upp­bygging við að mark­miðið um 30 þúsund tonna fram­leiðslu­getu náist árið 2027 í stað 2029, eins og áður var miðað við.

Þá liggja fyrir langtímaá­form um að auka fram­leiðslu enn frekar, í allt að 45 þúsund tonn, en frekari upp­lýsingar um tíma­setningar og fjár­festingar­kostnað liggja ekki enn fyrir og eru því ekki teknar inn í verðmatið að svo stöddu.

Verðmats­gengi lækkar um 36% eftir hluta­fjáraukningu

Meðal breytinga sem hafa áhrif á út­komu verðmatsins er 46,2 milljóna evra hluta­fjáraukning sem lauk í júní.

Þessi fjár­mögnun styrkir sjóðs­stöðu félagsins, sem nú er metin betri en við síðustu áramót, og hefur það jákvæð áhrif á verðmat upp á 11,5 pró­sentu­stig.

Hins vegar leiðir þynningin einnig til þess að verðmats­gengi – sem er mat á hverjum einstökum hlut – lækkar úr 452 krónum niður í 288 krónur, eða um 36 pró­sent.

Viðbættar líkur á sveiflum

Verðmats­for­sendur byggja á 3,8% framtíðar­vexti og vegnum fjár­magns­kostnaði upp á 9,33%, sem er óbreytt frá fyrra mati.

Meðal­verð á laxi á næstu fimm árum er áætlað 7,3 evrur á kíló. Jakobs­son Capi­tal gerir ekki ráð fyrir virðis­aukningu líf­massa í rekstrar­spám, en tekur mið af því að tíðar niðurfærslur haldist áfram og að rekstrar­hagnaður á hvert kíló verði 1,28 evrur til lengri tíma, saman­borið við yfir eina evru í fyrri spá.

Næmnigreining- verð og framtíðarvöxtur.
Næmnigreining- verð og framtíðarvöxtur.

Í næmni­greiningu kemur fram að verði þróunin jákvæð – t.d. ef verð á laxi hækkar í 7,7 evrur/kg – gæti verðmats­gengið hækkað í allt að 436 krónur. Ef virðis­rýrnun og af­föll verða viðvarandi gæti gengið aftur á móti lækkað í allt að 236 krónur.