Ríkið hefur lauk nýlega sölu á Laugavegsreitnum svokallaða, líkt og fjallað er um í Viðskiptablaði vikunnar.

Ríkiskaup, sem eru í dag hluti af Fjársýslu ríkisins, auglýsti fasteignir að Laugavegi 114, 116 og 118b auk Rauðarárstígs 10, samtals um 8.200 fermetrar, árið 2021.

Myndlistaskólinn í Reykjavík, sem var áður til húsa í JL-húsinu, keypti Rauðarárstíg 10 (sama hús og Laugavegur 118b) sumarið 2024 fyrir 956 milljónir króna af ríkissjóði.

Um er að ræða tvær eignir, atvinnu- og skrifstofuhúsnæði, sem samtals eru 3.983 fermetrar að stærð. Starfsemi Geislavarna ríkisins er á fjórðu hæð hússins og er unnið að því að finna annað húsnæði undir stofnunina til framtíðar.

Laki fasteignir ehf., félag í eigu Ágústs Guðmundssonar, annars stofnenda Bakkavarar, keypti skrifstofuhluta fasteignarinnar að Rauðarárstíg 10, sem er um 1.418 fermetrar, fyrir 335 milljónir króna af Myndlistaskólanum og var eignin afhent í febrúar síðastliðnum.

Önnur hæð skrifstofuhúsnæðisins var nýlega auglýst til leigu og tekið er fram í auglýsingunni að verið sé að endurgera rýmið alveg frá grunni.

Skrifstofuhúsnæðið sem um ræðir er merkt númer 5 á þessari teikningu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Art Zone ehf., félag í eigu Gabríels Þórs Bjarnasonar, keypti fasteignir að Laugavegi 114 og 116 á horni Laugavegar og Snorrabrautar, sem hýsti áður Tryggingastofnun ríkisins (TR), af ríkissjóði í ár.

Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um Laugavegsreitinn í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn síðasta, 30. júlí 2025.