Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir Orkuveituna komna langt út fyrir sitt kjarnahlutverk með Carbfix-verkefninu.
„Það breytir því þó ekki að Carbfix er stórmerkilegt verkefni sem byggir á margra ára vísindastarfi en það verkefni myndi dafna betur ef eignarhaldið væri annað,“ segir Hildur.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær lauk Carbfix hf. rekstrarárinu 2024 með skuldir upp á 43,9 milljónir evra, um 6,3 milljarða króna á gengi dagsins.
Um er að ræða 79% aukningu á milli ára en félagið skuldaði 24,5 milljónir evra í árslok 2023. Langtímaskuldir til Orkuveitu Reykjavíkur (OR), stærsta eiganda Carbfix, námu 30,6 milljónum evra í árslok 2024, samanborið við 14,6 milljóna skammtímaskuld við OR árið áður.
Orkuveitan hefur því lagt félaginu verulegt fjármagn til rekstrar og breytt skammtímaskuldinni í langtímalán.
Árið 2022 var Carbfix hf. stofnað þar sem ljóst var að næsti kafli í þróun félagsins og einstakra verkefna kallaði á tuga milljarða króna fjárfestingu.
Í umsögn rýnihóps borgarráðs um stofnun félagsins sagði að ekki væri réttlætanlegt að slíkar fjárhæðir rynnu úr borgarsjóði eða rekstri OR. Því þyrfti að sækja aukið fé með sölu hlutafjár og/eða lánum. Það hefur þó ekki gerst enn.
Hildur segir Carbfix vera áhættuatriði fyrir skattgreiðendur í Reykjavík og segir að það sé langbest að selja félagið í heild sinni þannig að áhættan yrði á herðum annarra.
Óvissa í kringum verkefni félagsins, til að mynda Coda Terminal, eykur þessa áhættu fyrir Reykvíkinga.
Spurð um hvort Orkuveitan þurfi að reyna að flýta söluferlinu til að forðast aukna skuldsetningu félagsins segir Hildur fjárhagslega aðkomu Orkuveitunnar að Carbfix hafa náð þolmörkum.
„Ég hef sagt það áður að við eigum ekki að taka áhættu með fjármuni skattgreiðenda sem liggja inni í Orkuveitunni með þessum hætti. Það þýðir ekki að verkefnið sé ekki gott en þetta rúmast að mínu mati ekki innan kjarnahlutverks Orkuveitunnar og því þarf að koma þessu í hendur einkafjárfesta,“ segir Hildur.
Í ársreikningi OR er bent á að fjárfestingar og lánveitingar til Carbfix séu áhættusamar þar sem félagið sé á vaxtarog þróunarstigi án sjálfbærs tekjuflæðis. Tekið er fram að stefnt sé að því að fá meðfjárfesta að verkefnum til að minnka áhættu, en að árangur ráðist af því hvort Carbfix nái að ljúka samningum og framkvæmdir gangi samkvæmt áætlun.