Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í 1,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Mesta veltan, eða um 680 milljónir króna, var með hlutabréf Íslandsbanka sem hækkuðu um 0,8%. Gengi bankans stendur nú í 127 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra frá útboði ríkisins í maí. Markaðsgengi bankans er nú 19,2% yfir 106,56 króna útboðsgenginu.

Næstmesta veltan, eða yfir 400 milljónir króna, var með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 3,3% í viðskiptum dagsins, mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi Alvotech stóð í 1.105 krónum á hlut en til samanburðar fór dagslokagengi félagsins lægst í 1.045 krónur í mánuðinum.

Málmleitarfélagið Amaroq hækkaði næst mest eða um 2,8% í ríflega 50 milljóna króna veltu og stendur nú í 127 krónum á hlut. Gengi félagsins er engu að síður 30% lægra en í byrjun árs.

Hlutabréfaverð Play lækkaði um 5,3% í 23 viðskiptum upp á 2 milljónir króna og stendur nú í 0,464 krónum á hlut. Dagslokagengi Play fór lægst í 0,46 krónur á þriðjudaginn eftir að flugfélagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun.