Þjóðskrá hóf í morgun birtingu á sjálfvirkum skýrslum úr fasteignaskrá, þjóðskrá og kaupskrá. Fyrstu skýrslurnar eru sniðnar að einstökum sveitarfélögum þar sem gögn úr þessum skrám birtast fyrir valið sveitarfélag. Með þessu geta starfsmenn sveitarfélaga og aðrir áhugasamir meðal annars nálgast heildstæðar upplýsingar um stöðuna á fasteignamarkaði, fyrstu kaupendur og íbúafjölda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.

Gögnin í skýrslunum byggja á sjálfvirkum gagnauppfærslum en flestar eru þær uppfærðar einu sinni á sólarhring og gefa því raunstöðu yfir veltu á fasteignamarkaði, fyrstu kaupendur, kaupverð, þróun fasteignamats, skráðan fjölda íbúa og aldursdreifingu ásamt fleiru. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um einstaka gagnasöfn hjá Þjóðskrá og á vef stofnunarinnar en gögnin munu verða gerð aðgengileg í vefþjónustum fyrir stórnotendur á fyrri hluta næsta árs.

Þróun skýrslnanna var kynnt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í október síðastliðnum en þær hafa í kjölfarið verið þróaðar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, segir sjálfvirku skýrslurnar vera framhald af þeirri vegferð sem stofnunin hefur verið á í endurskoðun á öllu birtu talnaefni.

„Við höfum verið að sjálfvirknivæða þessar vinnslur og þarna erum við að útbúa sjálfvirkar skýrslur fyrir ákveðinn notendahóp sem hefur þörf fyrir gögn sniðin að sveitarfélaginu sínu án þess að þurfa að leita þau uppi á mörgum stöðum," er haft eftir Margréti.

Þá segir Margrét  ýmsa möguleika fyrir hendi í framtíðinni, til dæmis að útbúa sjálfvirkar skýrslur um leigumarkað og kaupmarkað fasteigna sem byggðar eru á upplýsingum í gagnasafni Þjóðskrár. Hún segir að þörfin fyrir aðgengileg gögn sé alltaf að aukast.

„Það eru fjölmörg tækifæri fyrir hendi við að gera gögn aðgengilegri og það er þangað sem við viljum stefna. Það felst bæði í að þjónusta stórnotendur sem og aðra hópa sem þurfa gögn við ákvörðunartöku eða í annarri greiningu."