Örninn Hjól ehf., stærsta reiðhjólaverslun landsins, hagnaðist um 60 milljónir króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 43 milljóna hagnað árið áður.
Stjórn félagsins leggur til að allt að kr. 60 milljónir verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2025, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.
Tekjur Arnarins drógust saman um 60 milljónir króna, nær eingöngu vegna samdráttar í sölu á reiðhjólum, og námu 1.571 milljón króna í fyrra. Félagið segir að aðrar deildir hafi hins vegar komið sterkari inn en áður og vegið upp samdrátt í sölu reiðhjóla að hluta.
Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins jókst úr 60 milljónum í 85 milljónir milli ára. Ársverkum fjölgaði úr 33 í 34 milli ára.
Í skýrslu stjórnar kemur fram að í desember síðastliðnum var gerður áframleigusamningur um Bíldshöfða 9 „sem mun hafa verulegan sparnað í leigukostnaði á komandi árum“. Á árinu 2023 hafi klárast flutningar á golfdeildinni af Bíldshöfða 9 sem sé helsta skýringin fyrir lækkun á rekstrarkostnaði.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 1.156 milljónir í árslok 2024, en þar af voru vörubirgðir upp á 714 milljónir. Eigið fé var um 888 milljónir króna.
„Meirihluti alls innflutnings af hjólum kom inn á lager á árinu 2024 fyrir sölu 2025 og kemur það til af ástandi í birgðamálum út í heimi og skýrir það háa birgðastöðu í lok árs.“
Jón Pétur Jónsson er aðaleigandi og framkvæmdastjóri Arnarins.