Fjögurra manna hópur sérfræðinga hefur gengið til liðs við Advania til að stýra viðskiptaþróun veflausna fyrirtækisins. Fyrir teyminu fer Birgitta Ósk Rúnarsdóttir sem hefur víðtæka reynslu úr hugbúnaðar- og fjármálageiranum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Birgitta Ósk kemur til Advania frá Sendiráðinu þar sem hún var verkefnastjóri hugbúnaðarverkefna. Þar áður starfaði hún hjá Landsbankanum og hefur víðtæka reynslu á sviði fjármála. Birgitta hefur setið í stjórn SVEF (Samtaka vefiðnaðarins), Systra og Tvíundar hjá Háskólanum í Reykjavík þaðan sem hún lauk B.Sc. í tölvunarfræði og stundar nú MPM-nám við sama skóla.

Í teyminu með Birgittu eru þau Arna Gunnur Ingólfsdóttir, Einar Örn Bjarnason og Sveinn Bjarnason.

Arna Gunnur Ingólfsdóttir kemur frá WebMo Design, en í tilkynningu segir að hún sé meðal helstu sérfræðinga landsins í vefverslun. Arna var áður markaðs- og sölustjóri hjá Stokki Software, vefverslunarstjóri Bláa lónsins og Head of Digital hjá WebMo Design. Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar nú MPM-nám við sama skóla.

Einar Örn Bjarnason býr yfir 20 ára reynslu í þjónustu við viðskiptavini, innleiðingu og rekstur á kerfum. Hann starfaði áður sem rekstrar- og verkefnastjóri hjá Optima, þar á undan í 10 ár sem sérfræðingur í tækniþjónustu Símans. Hann er með B.Sc. í viðskiptafræði og MPM-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Sveinn Bjarnason hefur yfir 20 ára reynslu af hugbúnaðargerð, fyrst sem forritari hjá Trackwell Software og síðan í 14 ár hjá Fuglum, þar sem hann meðal annars starfaði sem verkefnastjóri stafrænna verkefna síðastliðin fimm ár. Hann er með B.Sc. í tölvunarfræði og MPM-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Valeria Rivina, forstöðukona veflausna Advania:

,,Það er mikill fengur að fá þessa reynslubolta til liðs við okkur enda með yfirgripsmikla þekkingu  sem viðskiptavinir okkar munu njóta góðs af. Við erum afskaplega ánægð að hafa náð í svo kraftmikið fólk."

Birgitta Ósk, deildarstjóri viðskiptaþróunar veflausna:

„Advania er eitt stærsta og flottasta tæknifyrirtæki landsins og það er mér mikill heiður að fá tækifæri á að taka við hlutverki deildarstjóra viðskiptaþróunar. Ég er ákaflega þakklát að fá að sameina ástríðu mína sem liggur í tækni, hönnun og viðskiptum."